Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki vel staðið að undirbúningi Íslandsmótsins

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Ekki vel staðið að undirbúningi Íslandsmótsins

11.05.2020 - 11:33
Nú styttist í að mót á vegum KSÍ hefjist að nýju. Þórir Hákonarson, íþróttastjóri hjá Þrótti Reykjavík og fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, segir að upplýsingaflæði til aðildarfélaga þurfi að vera betra. Enn sé óljóst hvernig leikjum og æfingum verður háttað í sumar.

Þórir er ánægður með að mótið og fótboltinn sé að komast á fullan skrið en honum finnst vanta upplýsingar. „Ég hef alveg látið þá skoðun mína í ljós að mér finnst vanta töluvert upp á að upplýsingaflæði sé nóg og það sé búið að skipuleggja þetta nægilega vel, það er að gríðarlega mörgu að huga fyrir mótið undir þessum kringumstæðum.” Til dæmis vanti ýmsar upplýsingar um hvernig framkvæmd leikja verði háttað, hversu margir áhorfendur megi vera á leikjum og hvernig tengsl megi vera milli liða á leikstað. 

Þá finnst honum ekki nógu skýrt hvernig liðin mega æfa fram að móti og hvað á að gera ef smit greinist hjá leikmanni. „Þetta er stórt verkefni sem er framundan hjá okkur, það má lítið fara úrskeiðis til að þetta gangi upp,” segir Þórir og bætir við „Ég hefði viljað sjá betri undirbúning og meira upplýsingaflæði frá knattspyrnuyfirvöldum, hvort sem það er KSÍ eða Íslenskur toppfótbolti”.

Undanfarnar vikur hafa heyrst raddir um að einhver lið fylgi samkomubanninu ekki nógu vel og að æft sé í of stórum hópum. Þórir telur að í þeim tilvikum geri menn sér ekki grein fyrir hvað afleiðingarnar geta verið alvarlegar. „Þess vegna er mjög mikilvægt að fara eftir tilmælum sem eru gefin eru út og mér finnst þau ekki hafa verið nægjanlega góð.” Þetta megi bæta með ítarlegri tilmælum til liðanna.

Ljóst er að Þróttur verður fyrir fjárhagstjóni vegna COVID-19-faraldursins.  Þórir segir að líkt og í öðrum félögum hafi reksturinn verið erfiður fyrir. Hann segir að líta verði á aðstæðurnar nú sem tækifæri fyrir félögin að taka til í rekstrinum og breyta tekjuöflun og uppsetningu á rekstrinum. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Þórir Hákonarson kallar eftir betra upplýsingaflæði frá KSÍ

Styrkur frá knattspyrnusambandi Evrópu

Þróttur hefur undanfarin þrjú ár staðið fyrir verkefni sem tengist hælisleitendum og flóttafólki. Félagið hefur boðið þessum hópi sérstakar fótboltaæfingar með menntuðum þjálfurum. Félagið hlaut nýlega styrk frá UEFA, knattspyrnusambandi Evrópu, til að halda áfram með verkefnið. Þetta er annað sinn sem Þróttur fær styrk frá knattspyrnusambandi til þessa verkefnis. Upphaf þess var að Reykjavíkurborg leitaði til Þróttar um úrræði fyrir þennan hóp. „Við ákváðum bara að keyra alla leið og setja á fót svona verkefni með fótboltaæfingum. Við renndum svolítið blint í sjóinn með þetta en það vakti mikla lukku strax,” segir Þórir.

Flestir í hópnum eru á aldrinum 25-40 ára og um 14-16 manns mæta á hverja æfingu. Nokkrir úr hópnum hafa einnig mætt á æfingar hjá SR, vinafélagi Þróttar, sem spilar í 4. deild. Hlé var gert á æfingum síðustu vikur í samkomubanninu en Þórir reiknar með að þær hefjist aftur 25. maí. 

Rætt var við Þóri Hákonarson í Sportrásinni á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

FH og Þróttur R. fá styrk úr sjóði UEFA

Íslenski fótboltinn

Þróttur spilar í Pepsi Max deildinni 2020