Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dótturfélag KS endurgreiðir 17 milljóna hlutabætur

Mynd með færslu
 Mynd: Kaupfélag Skagfirðinga - KS.is
Kaupfélag Skagfirðinga veitir dótturfélagi sínu, kjötvinnslunni Esju Gæðafæði ehf., sérstaka fjárhagsaðstoð svo fyrirtækið geti endurgreitt Vinnumálastofnun vegna starfsfólks vinnslunnar sem hefur fengið greitt á grundvelli hlutabótaleiðar. Endurgreiðslan nemur um 17 milljónum króna.

Í tilkynningu frá KS kemur fram að kjötvinnslan hafi aldrei greitt kaupfélaginu arð, en félagið einbeiti sér að því að verja störf um eitt þúsund starfsmanna hjá félaginu og dótturfélögum. Þessi ákvörðun er liður í þeirri stefnu, en leita á allra leiða til þess að ná því markmiði án sértækrar aðstoðar frá ríkinu eins og það er orðað í tilkynningu frá félaginu.

KS fylgir þar í fótspor Haga, Skeljungs og Festi. Hagar segjast ætla að endurgreiða Vinnumálastofnun 36 milljónir króna, Skeljungur 7-8 milljónir króna og Festi sagðist ætla að hætta við að nýta hlutabótaleiðina, en félagið fékk um 40 milljónir þaðan frá ríkinu.