Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áætla að lagfæringar kosti 4,5 til 5 milljarða

11.05.2020 - 23:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Framkvæmdir við lagfæringar á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík í Reykjanesbæ eiga eftir að kosta fjóran og hálfan til fimm milljarða króna, að því er fram kemur í fraummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum af endurbótum á verksmiðjunni, sem birt var á vef Skipulagsstofnunar fyrir helgi. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og að þær taki um 14 mánuði.

Stakksberg, eigandi verksmiðjunnar, er dótturfélag Arion banka, sem var helsti kröfuhafi fyrrum eigenda verksmiðjunnar, þegar hún var kennd við United Silicon. Verksmiðjan var fyrst ræst haustið 2016 en Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina tæpu ári síðar, sökum mengunar. Yfir þúsund kvartanir bárust Umhverfisstofnun. Ráðast þarf í endurbætur á verksmiðjunni til að fá leyfi til að starfrækja hana á ný. 

Í frummatsskýrslunni segir að í endurbótunum felist meðal annars framkvæmdir á lóð verksmiðjunnar, breytingar á núverandi byggingum og nýbyggingar og uppsetning á 52 metra háum skorsteini til að bæta dreifingu útblásturs.

Áætla að sækja um byggingaleyfi fyrir ný mannvirki

Gert er ráð fyrir að matinu verði lokið um mitt þetta ár. Í framhaldi af því er ætlunin að Stakksberg sæki um byggingarleyfi fyrir ný mannvirki og að endurskoðun á starfsleyfi verði auglýst. Í skýrslunni segir að tilgangurinn með fyrirhuguðum framkvæmdum sé að lágmarka umhverfisáhrif og stuðla að því að starfsemin verði í sátt við íbúa svæðisins. Þá er ætlunin að með úrbótunum takist að uppfylla þau skilyrði sem Umhverfisstofnun hefur sett um breytingar og viðbætur á búnaði fyrir endurræsingu verksmiðjunnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Verkís - Frummatsskýrsla
Á myndinni má sjá líkan af fullbyggðri verksmiðju með 4 ofna. Einnig sést líkan af núverandi mannvirkjum á öðrum lóðum. Í skýrslunni segir að líta beri á mannvirki framtíðaráfanga sem „skematíska framsetningu á áætlaðri stærð þeirra“.

Þrír ofnar til viðbótar á teikniborðinu

Endurbæturnar miðast við fyrsta áfanga verksmiðjunnar og að í henni sé einn ofn, eins og nú er. Þá er stefnt að allt að 25.000 tonna ársframleiðslu. Frá upphafi hefur verið stefnt að því að ofnarnir verði fjórir og framleiðslan aukin í takt við það. Slíkt áform eru enn uppi á borðum, samkvæmt frummatsskýrslunni. Þar segir að áætlað sé að framleiðslan verði allt að 100.000 tonn á ári. Til að svo geti orðið þarf, auk þess að fjölga ofnum, að stækka ofnhús og bæta við nýjum mannvirkjum. 

Ekki er ljóst hvenær verður ráðist í seinni áfanga byggingu verksmiðjunnar, að því er segir í frummatsskýrslunni. Það eigi eftir að ráðast af aðstæðum á markaði og möguleikum á fjármögnun. Gert er ráð fyrir að starfsmenn verksmiðjunnar verði um 190 þegar fjórir ofnar verða komnir í rekstur. Þeir voru á milli 60 og 70 það ár sem verksmiðjan var starfrækt.

Telja ekki góðan kost að sleppa því að ræsa verksmiðjuna

Sá kostur að ræsa verksmiðjuna ekki að nýju er metinn í frummatsskýrslunni. Þar segir að ef hann yrði valinn þyrfti líklega að rífa niður allar byggingarnar á lóðinni. Verði verksmiðjan ekki endurræst myndi það leiða til þess að tekjur skorti til að standa undir rekstri starfseminnar og þeim kostnaði sem þegar hafi orðið til og því yrði rekstri félagsins sjálfhætt. „Þessi niðurstaða myndi þýða að ekki verða til um 600 störf, bein og óbein, sem hefðu orðið til við rekstur fullbyggðrar verksmiðju. Helgavíkurhöfn og sveitarfélagið munu ekki fá tekjur af starfsemi verksmiðjunnar og önnur umhverfisáhrif sem fjallað er um í mati verða ekki. Kosturinn samrýmist ekki markmiði framkvæmdaraðila,“ segir í skýrslunni.

Frestur til að skila inn athugasemdum við matið er til 26. júní og hefur Stakksberg opnað kynningarvef þar sem almenningur getur sent inn spurningar um framkvæmdirnar og matið.