Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfirvöld í Ischgl þræta enn fyrir að hafa brugðist

10.05.2020 - 20:39
Erlent · COVID-19 · Evrópa
Mynd: EPA / EPA
Stjórnvöld í Austurríki halda því enn fram að þau hafi gert allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar frá skíðasvæðum þar. Rúmlega ellefu þúsund tilfelli hafa verið rakin til skíðasvæðisins Ischgl í Ölpunum.

Austurrísk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að taka hagsmuni ferðaþjónustunnar fram yfir heilsu þeirra sem smituðust af kórónuveirunni á skíðasvæðum í austurrísku ölpunum í febrúar og byrjun mars. Íslensk yfirvöld vöruðu við ferðum til Ischgl eftir að hópur Íslendinga sem hafði verið þar á skíðum greindist með veiruna eftir komuna til landsins.

Markus Maaß, héraðsstjóri í Landeck, skammt frá Iscghl sagði í viðtali á föstudag að fjölmiðlar hefðu birt rangar upplýsingar í tengslum við viðvaranir Íslendinga, en blaðamenn sóttu hart að honum. „Í upphafi vissum við ekki hvaða fimm hótel þetta voru. En Íslendingar höfðu tilkynnt ykkur um nöfn hótelanna. Nei, það er misskilningur, þetta eru rangar upplýsingar, við vissum bara af átta smituðum og okkar eigin... En í tölvupóstinum frá Íslandi voru hótelin fimm nefnd... Nei, það er ekki rétt. Þar var bara talað um átta manns. Framsendi heilbrigðisráðuneytið ekki nöfn hótelanna? Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir sóttvarnayfirvalda á staðnum fengum við ekki aðrar upplýsingar en að átta Íslendingar hefðu smitast í Ischgl,“ sagði Maaß.

Þetta vekur furðu því upplýsingar frá sóttvarnayfirvöldum hér voru skýrar. Í tölvupósti til ferðaþjónustuyfirvalda fimmta mars segir að fjórtán séu smitaðir, og þeir hafi gist á fimm hótelum í Ischgl, og nánari upplýsingar veittar um hvert þeirra. Skíðasvæðinu var hins vegar ekki lokað fyrr en rúmri viku síðar.

Hópmálsókn er í farvegi og nefnd hefur verið sett á fót í Týról til að kanna hvort gripið hafi verið til réttra aðgerða, eða hvort viðvaranir héðan hafi verið hunsaðar. Nú hafa rúmlega ellefu þúsund tilfelli í Evrópu verið rakin til Ischgl, og í fimm löndum, Þýskalandi, Danmörku, Króatíu, Noregi og Slóveníu, eru fleiri rakin til Austurríkis en til Ítalíu, þar sem faraldurinn geisaði fyrst innan Evrópu. Kanslari Austurríkis hvetur til þess að leit að sökudólgum í faraldrinum verði hætt. „Ég myndi aldrei biðja Ítala að biðjast afsökunar á því að ítalskir gestir hafi borið veiruna til skíðahótela í Austurríki, enda var það greinilega ekki viljandi gert. Ég tel heldur ekkert vit í því að leita að blórabögglum á alþjóðavettvangi og tala um hver beri ábyrgð á faraldrinum,“ sagði Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis á blaðamannafundi fyrir helgi.