Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Vanir því að fá vandamál í andlitið á 80% hljóðhraða“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Flugmenn hjá Icelandair bjóðast til að taka á sig tuttugu og fimm prósenta skerðingu á launum og réttindum til þess að hjálpa félaginu í gegnum efnahagsþrengingar. Forstjórinn segir í bréfi til starfsfólks að það sé helsta hindrunin fyrir því að bjarga Icelandair. Flugfreyjur reiddust við bréfið og ætla ekki að taka á sig launalækkun. Flugvirkjar sömdu í dag.

Icelandair sagði upp rúmlega tvö þúsund manns um síðustu mánaðamót. Félagið hyggur á hlutafjáraukningu og ríkisstjórnin hefur heitið aðstoð, gangi útboðið eftir.

Í bréfi sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi starfsmönnum í gærkvöldi, kemur fram að draga þurfi úr kostnaði. „Launakostnaður er þar stærsti liðurinn og launakostnaður flugstétta vegur þar þyngst,“ segir í bréfinu. Forstjórinn hrósar starfsfólki en segir svo: „Það er engu að síður mjög sérstök staða að vera í, að vinna dag og nótt við að bjarga fyrirtækinu með frábæru samstarfsfólki og upplifa það á sama tíma að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“

Í bréfinu segir einnig að samþykki félagsmanna í stéttarfélögum flugstétta fyrir langtímakjarasamningum verði að liggja fyrir 22. maí en þá hefur hluthafafundur verið boðaður. Á honum verði óskað samþykkis fyrir hlutafjáraukningu. Takist ekki að endurfjármagna verður „framhaldið væntanlega ekki í höndum félagsins“, segir loks í bréfinu.  Bogi Nils vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag.

„Þetta bréf kom á óvart og útspil sem við sáum ekki fyrir,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. 

Flugmenn eru á öðru máli. „Við erum nú vanir því að fá vandamál í andlitið á 80% hljóðhraða þannig að við látum svona ekki hreyfa við okkur,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. 

„Fólki er brugðið og er reitt. Það er verið að senda þau skilaboð að það er undir starfsfólki komið að gæta að rekstrarhæfni félagsins sem við teljum að sé ekki eitthvað sem eigi að tíðkast á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Guðlaug. 

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þessi staða er grafalvarleg og erum tilbúnir að leggja okkar af mörkum til að tryggja samkeppnishæfni og stöðugleika og sveigjanleika fyrir félagið. Það er bara verkefnið okkar sem við erum að vinna í núna,“ segir Jón Þór.

Ríkissáttasemjari kallaði samninganefndir flugfreyja og Icelandair á sinn fund í dag með tveggja tíma fyrirvara. Kjarasamningar hafa verið lausir í hálft annað ár. Fundurinn stóð í tæpa klukkustund. Samninganefnd Icelandair vildi ekki veita fréttastofu viðtal en sagðist þurfa að ræða ákveðna hluti með baklandinu. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni.

„Þetta felur í sér launaskerðingu, skerðingu á réttindum til frambúðar. Þetta er veruleg kjararýrnun og í rauninni algjörlega úr takti við það sem gerist og gengur á íslenskum vinnumarkaði ef við til dæmis tölum um styttingu vinnuvikunnar,“ segir Guðlaug.

„Ja, við horfum nú bara svoleiðis á að við erum ein af þessum kjarnastéttum í félaginu. Við eigum mikið undir eins og landið allt og hagkerfið. Við höfum nú þegar lagt fram boð sem er rúmlega 25% sem er til hagræðingar og kostnaðarlækkunar fyrir félagið,“ segir Jón Þór.

25% launalækkun?

„Þetta er hagræðing og kostnaðarlækkun. Hluti af því er launalækkun. Svo er það lengri vinnutími og við erum tilbúnir til að gefa eftir orlof, helgarfrí og svona lífsgæði sem við teljum að við þurfum að koma til móts við okkar félag,“ segir Jón Þór.

Í hversu langan tíma?

„Til frambúðar,“ segir Jón Þór.

„Við erum til í að gera ýmislegt til að komast yfir erfiðan hjalla. En ekki launaskerðingu til langs tíma,“ segir Guðlaug.

Flugfreyjufélagið er aðildarfélag að Alþýðusambandinu. Drífa Snædal, forseti sambandsins, fjallar um bréf forstjóra Icelandair í færslu á Facebook og segir: „Yfirlýsingar forsvarsmanna Icelandair um ábyrgð starfsfólks á framtíð fyrirtækisins hafa vakið eðlilega og mikla reiði enda einstaklega ósvífnar.“

Þrjár flugstéttir starfa hjá Icelandair. Í tilkynningu nú fyrir stundu kemur fram að Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair hafi undirritað kjarasamning til ársloka 2025. Formaður flugvirkjafélagsins sagði í samtali við fréttastofu að samningurinn fæli í sér nokkra kjaraskerðingu, eftirgjöf og sveigjanleika á vinnutíma, viðbótarkjörum og aukagreiðslum. 

Jón Þór segir að nýlegur samningur við þýskt fyrirtæki um vöruflutninga sýni hversu vel samkeppnishæft flugfélag Icelandair sé. 

„Við ætlum að vera hér til frambúðar. Við ætlum að taka slaginn með okkar félagi,“ segir Jón Þór.