„Listin getur aldrei orðið lýðheilsustofnun“

Mynd: RÚV / Borgarleikhúsið

„Listin getur aldrei orðið lýðheilsustofnun“

10.05.2020 - 10:02

Höfundar

Kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur segir að sígarettan sem var tekin úr munni Bubba Morthens í vikunni sýni að samfélagið sé komið á vafasama braut. Hann segir mikilvægt að ekki megi beygja listaverk undir einhvers konar lýðheilsumarkmið.

Mikið hefur verið rætt í vikunni um sígarettuna sem var látin hverfa úr markaðsefni söngleikjarins Níu líf sem fjallar um ævi Bubba. Aðalmyndin sem auglýsir söngleikinn var teiknuð mynd, byggð á gamalli forsíðuljósmynd tímaritsins Samúel af Bubba með sígarettu lafandi úr vinstra munnvikinu. Rettan var fjarlægð eftir að Facebook neitaði að birta auglýsinguna auk þess sem það bárust að sögn kvartanir frá Krabbameinsfélaginu og áhyggjufullum borgurum. Sjálfur hefur Bubbi sagt að í þessu felist ritskoðun auk þess sem ljósmyndarinn sem tók upprunalegu myndina hefur mótmælt þessari meðferð á verki sínu.

Baltasar Kormákur ræddi málið í Vikunni með Gísla Marteini og fannst það allt hið klaufalegasta. „Sérstaklega þegar þú horfir á augnsvipinn, þegar þú ert að reykja þá pírirðu augun því reykurinn fer í augun á manni. Þegar það er búið að taka sígarettuna þá verður hann frekar perralegur á svipinn. Þetta meikar ekkert sens. Þetta er náttúrulega períóða og við erum komin á einhvern stað þar sem þessi hystería og Facebook-árásir sem fólk leggst í ef allt er ekki samkvæmt þeirra stöðlum, eru orðnar óþolandi.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir að þetta sé alltaf spurning um hvað sé list og ekki. „Ég held það sé mikilvægt að listin fái að koma okkur á óvart og sjokkera okkur,“ segir hann. Halla Oddný Magnúsdóttir segir að ef þetta gerðist í Frakklandi færi fólk út á götur að mótmæla, þar tæki fólk harða afstöðu með tjáningarfrelsi.

„Það er að hitna hérna líka, fólk er að fá nóg af þessu. Það má ekki segja neitt. Það er enginn að hvetja til reykinga þó þeir sýni hvernig lífið var hérna,“ segir Baltasar. „Það er kannski ágætisforvarnarstarfsemi að sýna hvernig allt var 1980 þegar foreldrar manns reyktu í bílnum í klukkutíma á leiðinni upp í sveit og allir ælandi.“ Hann spyr sig hvort það væri verið að segja sannleikann um tímabilið ef allir væru til dæmis syngjandi, óreykjandi og í belti. „Listin getur aldrei orðið einhvers konar lýðheilsustofnun. Það eru aðrir sem sjá um það. Fólk verður þar að hafa frelsi til að tjá sig.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Ljósmyndarinn ósáttur við breytinguna á Bubba-myndinni

Borgarleikhúsinu barst kæra vegna sígarettunnar

Menningarefni

Breyttu mynd af Bubba eftir ábendingar

Menningarefni

Bubbi um rettuna: „Auðvitað er þetta ritskoðun“