Fjölskylda slapp úr brennandi íbúð

10.05.2020 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Nær allt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna elds í ellefu hæða fjölbýlishúsi í Grafarvogi í morgun. Eldur logaði í íbúð á þriðju hæð. Heimilisfólk komst út af sjálfsdáðum en slökkviliðsmenn björguðu hundi út úr íbúðinni.

Eldurinn uppgötvaðist á níunda tímanum í morgun, í ellefu hæða fjölbýlishúsi í Húsahverfi í Grafarvogi. Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um eldinn upp úr klukkan hálf níu.

Óttar Karlsson varðstjóri fór í útkallið ásamt sínum mönnum. „Það eru allar stöðvar boðaðar af stað, ekki alveg ljóst í upphafi hversu mikill eldurinn eða hvort að allir væru komnir út. Við fengum svo þær upplýsingar á leiðinni að líklega sé búið að slökkva eldinn og allir séu komnir út. Svo reyndist annað vera. Það var hörkueldur í þessari íbúð sem er á þriðju hæð.“

Óttar segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn þrátt fyrir mikla loga og talsverðan reyk. 

„Sá sem við björguðum út var hundur, heimilishundurinn. Hann var ennþá inni í íbúðinni þegar við komum á staðinn og við björguðum honum út. Aðrir voru komnir út,“ segir Óttar. Fjölskyldan sem býr í íbúðinni var flutt á slysadeild til skoðunar. Margir íbúar voru komnir út á bílastæði þegar slökkviliðið kom á staðinn. „Við fórum ekkert í að rýma allt húsið heldur bara í að koma skilaboðum til fólks um að halda sig inni og hafa lokaðar hurðir og glugga á hæðum fyrir ofan og neðan. Það var búið að rýma nánast þessa þriðju hæð. Það eru sex íbúðir á hæðinni.“

Ekki var talið að reykurinn hefði borist að ráði milli íbúða og öðrum íbúum því óhætt að snúa aftur til síns heima. Hins vegar urðu miklar skemmdir á íbúðinni þar sem eldurinn geisaði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV