Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Er Kim Jong-un lífs eða liðinn?

10.05.2020 - 07:30
Mynd: Norður-Kórea / AP
Nýverið fóru sögur kreik um meint heilsuleysi Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Sumir fréttamiðlar gengu svo langt að lýsa því yfir að leiðtoginn væri látinn og því stjórnarkreppa í vændum í landinu. Svo virðist þó vera sem ekkert ami að leiðtoganum, það er að segja ef við tökum norður-kóreska ríkisfjölmiðilinn trúanlegan. En sögur um meint heilsuleysi leiðtogans vekja upp stærri spurningar tengdri framtíð þessa leyndardómsfulla ríkis, hvað gerist ef Kim fellur nú frá?

Kim Jong-un er við hestaheilsu. Hann stendur beinn í baki, gengur greitt og virðist glaðbeittur. Hann brosti nefnilega sínu breiðasta, sínu fallega brosi, við opnun nýrrar áburðarverksmiðju rétt utan við Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Hann klippti á rauðan borða, ekki í fyrsta sinn, og virðist bara hreint ekkert hjartveikur, þaðan af síður dáinn.

 

Þetta er vert að taka fram, þar sem síðustu vikur hafa sögusagnir um hrakandi heilsu leiðtogans náð flugi í vestrænum fjölmiðlum. Einhverjir þeirra gengu svo langt að halda því fram að Kim Jong-un væri dáinn, enda hafði hann ekki sést opinberlega svo vikum skipti. Ekki fyrr en 1. maí.

Mynd með færslu
 Mynd: KCNP
Myndin umrædda frá 1. maí. Leiðtoginn opnar nýja áburðarverksmiðju í útjaðri Pjongjang.

Norðurkóreski ríkisfjölmiðillinn tók þá af allan vafa um meintan dauða leiðtogans með því að birta mynd af honum, sprelllifandi. Erfitt er þó að meta sannleiksgildi myndarinnar, og er atburðarás síðustu vikna um margt einkennandi fyrir hulduríkið Norður-Kóreu. Nær einu upplýsingarnar sem ég - og langflestir fjölmiðlamenn um veröld alla – hef af málum í Norður-Kóreu koma beint frá norðurkóreskum stjórnvöldum.

En Kim Jong-un var ekki einn á myndinni frægu. Beggja vegna við hann standa ónefndir embættismenn, en fyrir aftan hann stendur ung og dularfull kona. Hver er þessi kona og hvers vegna hefur hún í auknum mæli sést við hlið leiðtogans undanfarin misseri? Þetta mál vakti nefnilega upp fjöldann allan af spurningum, sem snúa að leiðtoganum og framtíð Norður-Kóreu. Hvernig er heilsufari hans raunverulega háttað, og hvað gerist ef hann fellur frá? Hver tekur við af honum? Verður það kannski þessa dularfulla kona, sem stendur við hlið hans á myndinni frá 1. maí?

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Sigurðsson - Morgunvaktin
Frá Pjongjang, höfuðborgar Norður-Kóreu.

Kim hvergi sjáanlegur á miklum hátíðisdegi

Hverfum nokkrar vikur aftur í tímann. Það er fimmtándi apríl í höfuðborg Norður-Kóreu, Pjongjang. Fjöldi fólks er á götum úti, enda er þetta mesti hátíðisdagur ársins í landinu. 15. apríl er nefnilega fyrir Norður-Kóreubúa næstum eins og jólin í hinum vestræna heimi.

Allt í lagi, að segja að fjöldi fólks hafi verið götum úti eru kannski ýkjur. Það er nefnilega svo að þótt enginn hafi formlega greinst með COVID-19 í Norður-Kóreu, virðast stjórnvöld þar í landi vera búin að átta sig á því að farsóttin sé skæð. Þeir sem lögðu blómsveig að minnismerki um leiðtogann sálauga voru með andlitsgrímur. Venjulega eru hátíðahöldin á þessum degi stórfengleg, svo ekki sé meira sagt.

Hvers vegna, jú vegna þess að þann 15. apríl 1912 fæddist Kim Il Sung, maðurinn sem árið 1948 lýsti fyir stofnun Alþýðulýðveldisins Kóreu sem við þekkjum í daglegu tali sem Norður-Kóreu, til aðgreiningar frá nágrönnum þeirra í suðri. Kim Il Sung var afi Kim Jong Un, og faðir Kim Jong Il, sem tók við leiðtogaembættinu af föður sínum þegar hann lést árið 1994. Kim Jong Il féll svo sjálfur frá 2011 og þá tók núverandi leiðtogi, sonurinn og sonarsonurinn Kim Jong Un við keflinu.

Gríðarleg persónudýrkun myndaðist í kringum Kim Il Sung, og man ég sjálfur frá fréttamyndum á sínum tíma sem sýndu alþýðuna öskrandi og grátandi í harmi sínum, þegar leiðtoginn lést.

Því er ekki að undra að 15. apríl sé mikill hátíðisdagur. Og þá myndi maður jú ætla að sonarsonurinn og núverandi leiðtogi, Kim Jong-un, hefði sig í frammi. En hann var hvergi sjáanlegur á Degi sólarinnar, eins og þessi hátíðisdagur er kallaður.

Hratt flýgur fiskisagan

Þau sem glöggt fylgjast með málefnum Norður-Kóreu fóru því að spyrja sig spurninga. Hvar var leiðtoginn? Hefur eitthvað komið fyrir hann? Sex dögum síðar barst fréttamiðlum Daily NK, sem er rekin af fólki sem tekist hefur að flýja Norður-Kóreu, ábending þess efnis að Kim hefði að undanförnu glímt við alvarlegar hjartsláttatruflanir og heilsu hans hrakaði hratt. Hann ætti við hjartavandamál að stríða vegna offitu, en hann vegur um 150 kíló, og vegna þess að hann sé í þokkabót stórreykingamaður.

Og hratt flýgur fiskisagan. Í kjölfarið greindu fjölmargir vestrænir fjölmiðlar frá því að ástand Kims væri alvarlegt. Einhverjir miðlar gengu svo langt að segja frá því að Kim hefði dáið, aðrir að hann væri í dái eða með heilaskaða.

En ráðamenn í nágrannaríkjum Norður-Kóreu, Suður-Kórea og Kína, neituðu þessu - og er það líklega í þessum löndum sem ráðamenn komast kannski hvað næst sannleikanum hverju sinni hvað varðar málefni Norður-Kóreu. Suðurkóresk yfirvöld sögðu ekkert óeðlilegt í gangi í Pjongjang, ratsjártíðni hefði ekki aukist, engar óeðlilegar hreyfingar á herafla og lítið um útfarartónlist í útvarpinu, og þess háttar - allt eitthvað sem benti til þess að allt væri í góðu lagi með Kim. En sögusagnirnar héldu þó flugi og undir þær tóku tveir suðurkóreskir þingmenn, sem eru reyndar flóttamenn frá Norður-Kóreu; Thae Yon-ho og Ji Seong-ho. Thae hefur þó beðist afsökunar á þessu, og dregið orð sín til baka.

Í Bandaríkjunum komust þessar sögur sömuleiðis á flug og ekki hjálpaði til þegar CNN greindi frá því, þann 21. apríl, að bandarísk stjórnvöld fylgdust grannt með þróun mála í Norður-Kóreu, og héldu að Kim væri í mikilli hættu eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð.

President Donald Trump and North Korean leader Kim Jong Un take a walk after their first meeting at the Sofitel Legend Metropole Hanoi hotel, Thursday, Feb. 28, 2019, in Hanoi. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kim Jong-un ásamt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Í fréttinni er vitnað í fjöldann allan af ónefndum heimiladarmönnum, háttsettum bandarískum embættismönnum. Málið þykir nú hið vandræðalegasta fyrir CNN, enda komst sagan á flug eftir fréttina og vefmiðillinn TMZ, sem ekki þykir alltaf áreiðanlegur fréttamiðill, greindi í kjölfarið frá því að Kim væri dáinn, líklega, þó. Kim Jong-Un er líklega dáinn eftir misheppnaða skurðaðgerð, stóð í fyrirsögn.  Þessu „líklega“ var síðar bætt inn í fyrirsögnina. Katy Tur, fréttaþulur á MSNBC sagði svo á Twitter að Kim væri með heilaskaða og vitnaði í tvo bandaríska embættismenn, ónefnda þó. Hún eyddi síðar tístinu og baðst afsökunar. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði svo þann 23. apríl að frétt CNN væri röng, það vonaði hann alla vega. Eins og hlustendur Heimskviða ættu að vita hafa Bandaríkjaforseti og CNN marga hildi háð undanfarin ár. Hann hefur ítrekað kallað CNN falsfréttastöð, og fréttamenn stöðvarinnar ásakað forsetann um að fara með fleipur. Það ætti því að vera gleðiefni fyrir forsetann, sé Kim heill heilsu, og málflutningur CNN byggður á sandi. Síðar, þegar forsetinn sá myndirnar umræddu af KIM frá 1. maí, deildi hann þeim á Twitter og sagði einfaldlega: Ég er ánægður að sjá hann aftur, og að hann sé við góða heilsu.

Heilsuleysi Kim Jong-un

En hvort Kim Jong-un er raunverulega heill heilsu, er annað mál. Það getum við einfaldlega ekki vitað með vissu. Eitt er þó víst, hann verður seint talinn heilsuhraustur maður, þótt hann sé aðeins 36 ára gamall. Anna Fitfield, blaðamaður á Washington Post, gaf á síðasta ári út bókina, The Great Successor, eða Arftakin mikli, sem fjallar um leiðtogann unga.

Þar segir hún meðal annars að mesta hættan sem steðjar að Kim sé heilsuleysi hans, og þá sér í lagi hjartavandamál. Hann er aðeins 170 sentimetra hár og heil 150 kíló að þyngd. BMI-stuðull hans sé því 45 og þess vegna flokkist hann sem offitusjúklingur. Leiðtoginn sé nokkurs konar hjartaáfall í uppsiglingu, segir hún í bókinni. Þá sé Kim einnig stórreykingamaður, sem ekki hjálpar til. Bæði faðir hans og afi voru hjartveikir og létust úr hjartabilun

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Kim Yo Jong, hin dularfulla systir leiðtogans.

Hvað gerist ef Kim deyr?

En hvað gerist ef Kim Jong-un fellur frá? Það veit enginn með vissu. Hann er jú sá þriðji í beinan karlegg sem gegnir embætti leiðtoga landins. Landinu hefur því frá upphafi, eða síðastliðin 70 ár, verið stjórnað af þremur mönnum í sömu fjölskyldu. En hver gæti tekið við? Talið er að Kim eigi börn með eiginkonu sinni, en þau eru bara pollar.

Víkur þá sögunni aftur til áburðarverksmiðjunnar fyrir utan Pjongjang 1. maí. Við hlið Kim á myndinni, myndinni sem staðfestir bæði góða heilsu og tilvist Kim Jong Un, stendur ung kona. Þetta er ekki eiginkona hans, heldur systir hans, Kim Yo-jong. Talið er að hún sé rétt rúmlega þrítug, en hún er yngsta barn Kim Jong-Il og á að hafa gengið í sama skóla og bræður hennar í Liebefeld-Steinhölzi í Bern í Sviss á tíunda áratugnum. Þar á hún að hafa tengst bróður sínum, King Jong-un, sterkum tilfininingaböndum.

Hún sást í fyrsta sinn opinberlega í útför föður síns árið 2011, en síðustu misseri hefur Kim Yo Jong sést æ oftar á opinberum vettvangi, oft við hlið bróður síns, en líka án hans. Hún var til að mynda viðstödd opnunarhátíð vetrarólympíuleikanna í Peyongsjang í Suður-Kóreu árið 2018 og var sú fyrsta í Kim-fjölskyldunni sem sótti Suður-Kóreu heim síðan á tímum Kóreustríðsins. Þar ræddi hún meðal annars við Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu og færði honum bréf frá bróður sínum. Í dag gegnir Kim Yo Jong stöðu yfirmanns áróðursmála í landinu og ber því nokkra ábyrgð á því hvernig ímynd bróður bróður hennar birtist út á við.

Mynd með færslu
 Mynd: 대한민국 청와대
Merkileg ljósmynd frá vetrarólympíuleikunum í Peyongsjang. Kim Yo-jong er uppi í hægra horninu. Fyrir neðan eru varaforseti Bandaríkjanna og forseti Suður-Kóreu.

Tekur systir Kims við keflinu?

En hvers vegna erum við að velta systur leiðtogans fyrir okkur? Jú, því nú spyrja fréttaskýrendur víða, í ljósi meint heilsuleysis leiðtogans; gæti Kim Yo-jong einn daginn orðið leiðtogi Norður-Kóreu?

Augljósa svarið við slíkri spurningu er þvert nei, þar sem valdastrúktúrinn í Norður-Kóreu er mjög karllægur, líkt og Anna Fitfield benti á í grein frá árinu 2018, um það leyti sem Kim Yo Jong heimsótti Suður-Kóreu. Það væri einfaldlega óhugsandi að kona tæki við leiðtogaembættinu. Og undir það tóku ýmsir sérfræðingar í hefðarétti Kóreuríkjanna.

En síðan hefur margt breyst. Heilsa leiðtogans er orðið háværara umræðuefni eins og greint hefur verið frá hér, en svo hefur systirin líka orðið meira og meira áberandi við hlið bróður síns. Cheong Seong-chang, sérfræðingur hjá Sejong stofnuninni í Suður-Kóreu, sagði nýlega í viðtali við AP-fréttastofuna að það væru nú meira en 90% líkur á því að Kim Yo Jong tæki við leiðtogaembættinu ef bróðir hennar félli frá. Hún hafi rétta blóðið og undanfarið hafi hún sífellt oftar setið fundi með hátt settum mönnum, meðal annars þegar bróðir hennar hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta á sögulegum fundi í Singapúr í fyrrasumar.

Og hún var ekki langt undan þegar þeir hittust á landamærum Norður- og Suður-Kóreu skömmu síðar. Trump var þar með fyrstur bandarískra forseta til að stíga á norðurkóreska grundu.

Aðrir koma til greina

Það er athyglisvert að horfa á myndskeið þar sem Kim Yo Jong bregður fyrir. Hún geislar af sjálfsöryggi og hún er oftar en ekki glottandi, eins og hún viti að eitthvað meira sé í vændum fyrir hana.

Fari svo að Kim þurfi frá að hverfa, eru vissulega aðrir kostir í stöðunni en að systir hans taki við hlutverkinu. Kim Jong-un á jú fleiri ættingja. Til dæmis bróðurinn, Kim Jong-chol, sem er meira að segja eldri en hann. Það er þó talið að sá hafi engan áhuga á pólitík eða öðrum opinberum stöfum og að faðir hans, Kim Jong Il, haf talið hann of stelpulegan til að fara með völd. Fáir telja að hann muni nokkurn tímann gegna lykilstöðu í Norður-Kóreu, en sökum þess að í honum rennur rétta blóðið er það ekki útilokað.

Kim Jong-un átti annan bróður, Kim Jong-nam, en hann var myrtur í furðulegri árás á flugvellinum í Kúala Lumpúr árið 2017. Árásin var að öllum líkindum fyrirskipuð af yfirvöldum í Norður-Kóreu, þótt það fáist líklega aldrei staðfest. Fyrir áhugasama er óhætt að mæla með þætti Veru Illugadóttir, Í ljósi sögunnar, um Kim Jong-un frá árinu 2017. Þar fjallar hún meðal annars um morðið á bróður leiðtogans.

Þá hefur 65 ára gamall frændi verið nefndur til sögunnar, Kim Pyong-il, sem sneri aftur til landsins í nóvember eftir að hafa verið diplómati í Evrópu áratugum saman.

epa08093382 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) on 29 December 2019 shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over the Third Enlarged Meeting of the Seventh Central Military Commission of the Workers' Party of Korea, in Pyongyang, North Korea.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: epa
Kim Jong-un er við hestaheilsu. Eða hvað?

Hulduríkið Norður-Kórea

Til að draga þetta saman er staðan einhvern veginn svona: Kim Jong Un er á lífi og við hestaheilsu samkvæmt upplýsingum frá norður-kóreskum yfirvöldum. Aðrir eru ekki eins sannfærðir um hreysti leiðtogans og því hafa vaknað spurningar um framtíð þessa dularfulla lands; einangraðasta ríkis heims; einræðisríkis þar sem ekkert COVID-19 smit hefur greinst. Það er auðvitað fásinna að halda því fram að enginn hafi smitast í landi sem á landamæri að Kína og Suður-Kóreu.

Á fimmtudag greindi ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu frá því að Kim Jong Un hefði sent Xi Jingping, forseta Kína, skilaboð þar sem hann hrósaði kollega sínum fyrir vasklega framgöngu í baráttunni við COVID-19. Kínversk yfirvöld hafa ekki viljað staðfesta að slík skilaboð hafi borist forsetaskrifstofunni.

Eitt er víst; það varðar ekki bara íbúa Norður-Kóreu hver fer með stjórnartaumanna í þessu sérstaka landi, heldur heiminn allan. Talið er að Norður-Kórea búi yfir allt að sextíu kjarnorkusprengjum og hundruðum langdrægra flugskeyta. Komi eitthvað fyrir leiðtogann, er því líklegt að stjórnvöld reyni að halda því leyndu sem lengst, alla vega þar til búið er að finna nýjan leiðtoga.

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður