Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bréf Boga sagt einstaklega ósvífið

10.05.2020 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Verkalýðshreyfingin ósátt við ummæli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem sagði í bréfi til starfsmanna í gær að lækka þyrfti launakostnað fyrirtækisins með breytingum á kjarasamningum. Starfandi formaður Flugfreyjufélagsins sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ekki kæmi til greina að lækka laun Flugfreyja til lengri tíma. 

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að yfirlýsingar forsvarsmanna Ielandair um ábygð starsfólks á framtíð fyrirtækisins séu einstaklega ósvífnar. „Nú er gefið í og krafist þess að flugfreyjur taki á sig launalækkun, skerðingu á réttindum ásamt auknu vinnuframlagi og þetta muni gilda næstu árin. Þetta er ögurstund í kjarabaráttu á krepputímum og nú gildir að standa fast gegn því að launafólk taki á sig kjararýrnun umfram það sem orðið er vegna uppsagna og minni vinnu. Ég geri þá skýlausu kröfu að björgun fyrirtækja, hvort sem er í gegnum lífeyrissjóði eða okkar sameiginlega ríkissjóð verði ekki framkvæmd með því að skerða laun eða minnka réttindi. ASÍ hefur staðið þétt við bakið á flugfreyjum og mun gera það áfram,“ segir Drífa Snædal, en Flugfreyjufélag Íslands á aðild að ASÍ. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir samningar við flugfreyjur hafa verið lausa frá 1. Janúr í fyrra. Flugfélagið hafi haft langan tíma til að ná langtímasamningi við félagið og ná kjarasamningi með stöðugleika og festu. „Það er augljóst að miðað við stefnur lífeyrissjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og samfélagslega ábyrgð þá gera þeir líklega kröfu til þess að fyrirtækið komi fram af ábyrgð og sanngirni gagnvart starfsfólki og gangi ekki á réttindi þess og skyldur. En að halda því fram að starfsfólkið sé vandamálið er auðvitað fráleitt og er það sjónarmið langt frá því að vera eðlilegt þegar starfsfólk er auðvitað lykilþáttur í góðum rekstri fyrirtækisins,“ segir Kristján. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist hafa átt mörg samtöl við stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem er annar stærsti eigandi Icelandair, vegna stöðu flugfélagsins. Hann segist geta staðfest að aldrei hafi komið krafa um það frá stjórn lífeyrissjóðsins að endursemja þurfi við starfsfólk félagsins svo það verði "samkeppnishæft" við önnur flugfélög.

„Ég get þó nánast fullyrt að lífeyrissjóðirnir opna ekki buddur sínar fyrir félag sem ætlar starfsfólki að afsala sér grundvallar réttindum,“ segir Ragnar.