10 handteknir og lögregluþjónn slasaður í veirumótmælum

10.05.2020 - 09:07
epa08412634 Protesters gather outside Parliament House in Melbourne, Victoria, Australia, 10 May 2020, during the coronavirus disease (COVID-19) pandemic. Anti-vaxxers and Victorians fed up with the coronavirus lockdown have broken social distancing rules to protest in Melbourne's central business district (CBD) on Mother's Day.  EPA-EFE/SCOTT BARBOUR AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Tíu voru handteknir og lögregluþjónn slasaðist í mótmælum í Melbourne í Ástralíu í dag. Þar var sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda mótmælt og mótmælendur fullyrtu að kórónuveirufaraldurinn væri ekki raunverulegt vandamál heldur samsæri stjórnvalda til að ná stjórn á fólki í landinu. 

Um 150 mótmælendur komu saman fyrir utan þinghúsið í Melbourne til að mótmæla samkomubanni og dreifa samsæriskenningum um veiruna. 

AFP fréttastofan segir að víðast hvar í Ástralíu sé þegar byrjað að draga úr takmörkunum sem settar voru á vegna veirufaraldursins en í Viktoríuríki var haldið áfram með takmarkanir eftir að hópsýking kom upp á meðal starfsmanna sláturhúss í Melbourne. 

Þrjátíu og sjö ára gamall karlmaður sem rætt var við sagðist hafa efasemdir um þær fullyrðingar að veirufaraldur væri í gangi. „Helmingur þjóðarinnar er starfandi, þótt gripið hafi verið til sóttvarnaraðgerða. Ef þetta fyrirbæri væri nærri jafn skaðlegt og þeir segja að það sé þá væri þetta að breiðast út eins og sinueldur um Ástralíu. Það væri ekkert sem myndi stöðva þetta,“ sagði Fano Panayides við AFP fréttastöðina.

Talskona lögreglunnar í Viktoríu segir að 10 manns hafi verið handteknir í morgun. Aðallega fyrir að brjóta gegn reglum um fjarlægðarmörk og útgöngubanni. „Þrír verða líka sóttir til saka fyrir að ráðast á lögreglumann og einn til viðbótar verður kærður fyrir að hafa hent flösku í átt að lögreglunni,“ segir talskonan. 
 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi