Segir viðbrögð Trumps skipulagslaust stórslys

09.05.2020 - 19:57
epa06990570 Former US President Barack Obama delivers remarks during Senator John McCain's memorial service at the Washington National Cathedral in Washington, DC, USA, 01 September 2018. Senator McCain died 25 August, 2018 from brain cancer at his
 Mynd: epa
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fór hörðum orðum um stjórn Donalds Trumps, eftirmanns síns, á viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum. Hann sagði viðbrögðin hafa verið algjörlega skipulagslaust stórslys. Þetta sagði Obama á fjarfundi með fyrrverandi undirmönnum sínum þegar hann hvatti þá til að styðja Joe Biden, fyrrverandi varaforseta sinn, í forsetakosningunum í haust. Fjölmiðlar komust yfir upptöku af samtalinu.

„Það sem við berjumst við er langtímaþróun þar sem sjálfselska, hóphugsun, klofningur og skilgreining annarra sem óvina hefur orðið sterkari þáttur í bandarísku samfélagi,“ sagði Obama. Hann sagði að þetta væri ein ástæðan fyrir því hvers vegna viðbrögðin við COVID-19 hefðu orðið máttlaus og ójöfn. „Þetta hefði orðið erfitt jafnvel með bestu mögulegu ríkisstjórn. Þetta hefur orðið algjörlega skipulagslaust stórslys þegar hugarfarið „hvað græði ég á þessu“ og „skítt með alla aðra“ verður ráðandi í stjórn landsins,“ sagði Obama. 

Trump gerði fyrst um sinn lítið úr kórónuveirufaraldrinum. Hann sagði litla hættu stafa af faraldrinum og að pólitískir andstæðingar sínir og fjölmiðlar notuðu hann til að koma á sig höggi. Síðar brást hann við með því að setja ferðabann á flest og að lokum öll ríki Evrópu. Hann hefur undanfarið talað fyrir því að draga fljótlega úr aðgerðum til að sporna gegn útbreiðslu faraldursins og kennt Kínverjum um útbreiðslu hans.

Obama gagnrýndi líka þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins bandaríska að ákæra ekki Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, fyrir að ljúga að alríkislögreglunni. Flynn játaði sök meðan á rannsókn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, stóð. Trump fagnaði því að Flynn yrði ekki ákærður. Obama lýsti hins vegar áhyggjum af því að þetta væri til marks um að réttarkerfinu væri stefnt í hættu. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi