Popp með risastóru P-i

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSTÓN - RÚV

Popp með risastóru P-i

09.05.2020 - 10:08

Höfundar

Untold Stories er fyrsta breiðskífa Birgis Steins Stefánssonar sem inniheldur uppsóp af smellum síðustu ára í bland við nýrri og nokkuð persónulegri lög.

Ég var hrifinn af tilleggi Birgis, Birgis Steins Stefánssonar, í Söngvakeppnina þetta árið. Þar átti hann tvö lög (ásamt Ragnari Má Jónssyni) og þar má heyra að drengurinn hefur ansi naskt innsæi í það hvernig byggja eigi upp lög af því taginu. Ég kallaði hann völund að því leytinu til, ef ég man rétt.  Tilfinning fyrir því hvenær eigi að fara upp, hvenær eigi að fara niður, hversu marga hringi eigi að taka áður en brestur á með viðlagi, virðist honum í blóð borin. Þar steig hann út fyrir þægindarammann ef svo mætti segja, en gerði það af öryggi, sem sýnir að hann er fjölsnærðari en ætla mætti. Á þessari plötu er hann hins vegar á heimavelli. Hér gefur að líta þau lög sem hafa aflað honum fylgis síðustu misseri, lög sem hafa náð gríðarspilun á efnisveitunni Spotify, en einnig nýrri lög. Og líkt með Söngvakeppnina, er hann engu minni völundur hér. Plötuna vann Birgir með Arnari Guðjónssyni í Aeronut-hljóðverinu en lögin eru flest eftir Birgi og Andra Þór Jónsson.

Tónlistin er popp, eins hreint og það gerist. Lögin hafa mörg hver notið mikilla vinsælda á Spotify og ratað inn á sérsniðna lagaspotta og skal engan undra. Lög Birgis sem kalla mætti epísk, „stór“ lög með blikbjörtum krókum, eru einkar haganlega samansett. Tikkað er í öll nauðsynleg box og lögin keyrð áfram í upplyftandi gír. Upphafslagið, „Alive“ er gott dæmi um þessa hlið hans. Greinilegar vísanir í Coldplay og þeirra leikvangatónlist þar sem kveikjarar fara á loft. Textalega varð mér hugsað til hins magnaða lags „Don‘t Stop Believin‘“ með Journey, svona óbifandi trú á styrk mannsandans og getu hans til að mæta hverju sem er. Þó að svona lög eigi það til að sveiflast upp að vissum þolmörkum er ekki hægt annað en að hrífast með um leið. „Alive“, „Letting Go“ og „Can You Feel It“ eru öll með þessu sniði. Hámarksgleði, jákvæðni og kraftur, lög sem rata einatt inn í auglýsingar, endasenur kvikmynda eða inn á peppandi hlaupa-lagaspotta. „Can You  Feel It“, sem er vinsælasta lag Birgis til þessa, er alveg sérstaklega vel heppnað hvað þetta varðar. Afar vel samið lag. Litla dýfan í upphafi, „Oh don‘t you worry about a thing“, gerir t.d. mikið fyrir það.

En það eru annars konar lög í bland. Ballöðumiðaðri. Tökum t.d. „For Our Love“ og „Higher“. Sniðið er alls ekki ólíkt því sem ég hef verið að lýsa, en þessar smíðar eru í hægari takti og að vissu leyti dýpri. Ég er búinn að tala mikið um lagasmíðakunnáttu en verð líka að nefna að hljómur plötunnar er fyrsta flokks. Birgir er þá hörkusöngvari líka og smekkvís, veit upp á hár hvernig skal beita röddinni.

Tónlist er margs konar, notagildið margvíslegt og brottfararstaðir listamannanna alltaf mismunandi. Birgir er auðheyranlega heill í öllu sínu og ferðalagið til þessa hefur verið farsælt. Hann tilheyrir auk þess nýrri kynslóð tónlistarmanna, þar sem starfsvettvangurinn er ansi ólíkur því sem var. Hann hanterar þetta með stæl, skiptir engu með gamla normið.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hann stendur nú annað slagið í sviðsljósinu“

Tónlist

„Lagið kallaði á mig að koma tilbaka“

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp