Smá geðveiki, en gaman
List í Ljósi var haldin í fimmta sinn í febrúar. Hátíðina stofnaði Sesselja ásamt vinkonu. „List í ljósi stofnaði ég með samstarfskonu minni Silju Harrison, sem er frá Nýja-Sjálandi. Við hittumst hérna á Seyðisfirði, alveg óvart, það var mjög fyndið. Ég var að vinna í sumarvinnu á Skaftfelli, sem er bistro í bænum og hún labbar inn og segir eiginlega við mig strax: „Hæ, ég heiti Silja. Eigum við að vera vinkonur?“ Þannig kynntumst við. Hún var með svipaða hátíð á Nýja-Sjálandi,“ segir Sesselja Hlín.
Framkvæmd hátíðarinnar í ár var vandkvæðum bundin vegna veðurs, enda rak ein appelsínugul viðvörun aðra á þessu tímabili. „Það tókst bara ótrúlega vel til. Við vorum reyndar svolítið óheppin með veður núna, enda er alveg smá geðveiki að halda úti-listahátíð á veturna, þar sem þú þarft að setja upp listaverk og lýsa í verstu veðrum. Við þurftum að færa hana fram um einn dag vegna veðurs. Síðan þurftum við að aflýsa henni á föstudeginum, taka allt inn vegna óveðurs og síðan pakka henni aftur út á laugardegi. Þannig að þetta var svolítil keyrsla, en ótrúlega skemmtilegt.“
Bæjarstæðið knúsar
Talsverður fjöldi erlendra listamanna sækir Seyðisfjörð heim árlega, í tengslum við List í ljósi, LungA-skólann og -hátíðina. Að sögn Sesselju er lítið mál að fá þátttakendur þrátt fyrir að bærinn sé síst í alfaraleið. „Það gengur rosalega vel, eiginlega allt of vel. Það þarf að segja nei við fullt af fólki, sem er ótrúlega magnað. Ég held að þetta sé líka bara orðspor bæjarins. Með listamannadvölinni í Skaftfelli og náttúrulega LungA-hátíðinni, sem er umtöluð um allan heim. Fólk veit alveg hvað LungA-festival er, sem er æðislegt. Þannig að það er ekkert erfitt að fá listamenn, þeir sækjast rosalega í þetta og koma aftur og aftur, sem er líka svo magnað. Síðan er það náttúrufegurðin og þetta bæjarstæði, það knúsar þig þegar þú kemur hingað inn þannig að fólk vill bara ekki fara,“ segir hún og bætir við að hún sé sjálf einmitt í þeirri stöðu: „Ég elska þetta og ég get ekki ímyndað mér að búa neins staðar annars staðar.“
Alls ekki planað
En hvernig eru viðbrigðin fyrir unga manneskju sem menntaði sig í borg og tók þátt í verkefnum sem þar eru og því samfélagi, að flytja aftur heim í vissum skilningi? Voru þetta mikil viðbrigði? „Það gerðist algjörlega óvart, þetta var ekki planað. Ég ætlaði bara að koma yfir sumar en síðan bara allt í einu var ég yfir haustið og síðan var ég bara flutt. Þannig að þetta var mjög náttúrulegt fyrir mig. Ég var bara orðin pínu leið á hraðanum í Reykjavík held ég. Síðan fékk ég vinnu og verkefni og annað verkefni og það varð einhvern veginn til þess að ég er búin að vera á Seyðisfirði seinustu fjögur árin og er að byggja mér hús. Þetta var mjög náttúrulegt en alls ekki planað.“
Rætt var við Sesselju Hlín Jónasardóttur í Menningunni.