Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frjáls eins og fuglinn

Mynd: RUV mynd / RUV mynd

Frjáls eins og fuglinn

09.05.2020 - 17:01

Höfundar

Fangar í öryggisfangelsinu á Hólmsheiði og starfsfólk fangelsisins geta notið myndlistar í opinberu en harðlokuðu rými innan girðingar fangelsins. Á útveggjum byggingarinnar og í aðkomugarði má njóta verka þeirra Önnu Hallinn og Olgu Bergmann sem sigruðu á sínum tíma samkeppni um list fyrir bygginguna.

Anna og Olga hafa nýlega gefið út glæsilega bók um verkið sem heitir einfaldlega Fangelsið. Víðsjá hélt í lautarferð listakonunum sem sögðu frá verkefninu rétt utan við fangelsið.

Flug fugla og eftirlit

Verkið er þríþætt. Í fyrsta lagi hafa listakonurnar komið upp verki sem þær kalla Trjásafn í aðkomugarði fangelsins þar sem nokkrar trjátegundir voru gróðursettar, en þar settu þær líka upp fuglahótel sem fljótlega voru nýtt fyrir hreiður. Í öðru lagi eru teikningar á veggjum í útivistargörðum fanga af flugi fugla sem eru algengir á svæðinu. „Þar reyndum við að elta hreyfingar fugla á flugi og yfirfæra þær yfir í tvívíðar teikningar sem síðan voru fræstar og hoggnar út í steinsteypta veggi,“ segja listakonurnar. Í þriðja lagi er hægt að fylgjast með beinni útsendingu úr fuglahótelunum inni á bókasafni fangelsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Bergmann og Anna Hallin - Einkasafn
Flug branduglunnar sett í tvívídd á einum veggjanna.

Fylgdust með fuglum um nætur

Anna Hallin segir að þær Olga hafi verið mikið við vinnu á svæðinu um það leyti sem framkvæmdir við fangelsið voru að hefjast, oft um nætur. „Við vorum bara úti að fylgjast með fuglum með kaffisopa og að teikna. Við fengum fuglafræðing með okkur til að hjálpa okkur að greina tegundirnar á svæðinu. Hann var líka með hljóðupptökur sem við notuðum til að kalla fugla að okkur ef þeir komu ekki. Ef við spiluðum upptökurnar kom karlfuglinn oft til að rífast,“ segir Anna hlægjandi. „Þegar við vorum síðan komnar með teikningar sem okkur þóttu í lagi þá bárum við þær undir fuglafræðinginn og spurðum hvort þær gætu passað við ákveðna fugla.“

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Bergmann og Anna Hallin - Einkasafn
Í fuglahótelum er skiljanlega mis-mikið fjör, stundum ansi mikið. Myndum er varpað inn á bókasafnið.

Olga segir gaman að taka að sér slík verkefni þar sem maður lærir ýmislegt í leiðinni. „Við lærðum heilmikið bæði um fugla og fangelsi. Ein svona grunnpælingin á bak við verkið í heild sinni tengist umhverfissálfræði og því að fjölbreytileiki og líf í umhverfinu hafi jákvæð áhrif á sálarlífið, hvort sem maður er meðvitaður um þau áhrif eða ekki,“ segir Olga. „Teikningarnar í görðunum sér fólk oft og kannski kveikja þær eitthvað á ímyndunaraflinu, einhverjar hugmyndir eða slíkt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Olga Bergmann og Anna Hallin - Einkasafn
Teikningarnar setja svip á útivistargarða fanga.

Bókin lokar verkefninu

Þær Anna og Olga gáfu síðan út fallega bók í fyrra um verkefnið í tengslum við sýningu sem þá var haldin um það í Hafnarborg. Í henni má finna grein eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur sem fjallar um eftirlitssamfélagið og inngang Jóns B.K. Ransu um list í opinberu rými. Þar er hægt að átta sig betur á umfangi verkefinsins, hugmyndum að baki því og útkomunni. 

Í spilaranum hér fyrir ofan má heyra ítarlegt viðtal sem tekið var við Önnu og Olgu rétt undan við fangelsisgirðinguna uppi á Hólmsheiði. Þar ræða þær m.a. upplifun sína af staðnum og starfseminni. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Íslenskt listafólk færir hafið inn í miðja Berlín

Myndlist

Forspá samsýning boðaði Þögult vor

Neytendamál

Ráðist að neytendum úr öllum áttum

Myndlist

Á Banksy venjulegt baðherbergi eins og við hin?