Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólöglegir innflytjendur allt í einu ómissandi

08.05.2020 - 16:12
Mynd: EPA-EFE / EPA
Í Bandaríkjunum hafa kjötpökkunarstöðvar orðið sérstaklega illa úti í heimsfaraldrinum. Af þeim 500 þúsund verkamönnum sem starfa í pakkhúsum stórfyrirtækja er talið að um 5000 hafi veikst, eða einn af hverjum hundrað. Að minnsta kosti tuttugu hafa látist. Kórónuveiran hefur varpað ljósi á bág starfsskilyrði verkamanna. Hún hefur líka afhjúpað hvernig matvælaframleiðsla í Bandaríkjunum hvílir að stórum hluta á herðum ólöglegra innflytjenda frá Rómönsku-Ameríku.

Kalt, rakt og mikið návígi

Minnihlutahópar hafa víða farið illa út úr faraldrinum, í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa greinst hlutfallslega fleiri smit meðal svartra en hvítra og innflytjendur virðast oft útsettari en aðrir. Oft er þetta fólk í framlínustörfum sem býr þröngt. Í kjötpökkunarstöðvum vestanhafs virðast hafa skapast kjörskilyrði fyrir nýju kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Stöðvarnar skipa sér í flokk með hjúkrunarheimilum, því smit eru óvíða algengari. Inni í verksmiðjunum er kalt og rakt. Þar vinnur fólk í miklu návígi á hraða sem gerir það að verkum að það á erfitt með að hósta eða hnerra í olnbogabótina. Í Evrópu er sjálfvirknin meiri í þessum bransa, Bandaríkin eru styttra á veg komin. 

Stöðvarnar færst úr borgunum í smábæi

epa08410324 A day laborer washes his hands in a fountain at a hiring site frequented by undocumented workers, at a park in Shirlington, Virginia, USA, 08 May 2020. About 20.5 million US jobs were lost and unemployment reached 14.7 percent in April amidst the coronavirus COVID-19 pandemic. Many economists believe official unemployment figures are probably an undercount of how many people are actually out of work, and the figures also don't show millions of workers that saw pay cuts.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hendur þvegnar.

Þetta hefur alltaf verið hættulegt að vinna í kjötvinnslu í Bandaríkjunum, vinnuslys eru tið. Starfsmenn mega fæstir við því að missa vinnuna. Starf stéttarfélaga er veikt, það var ekki alltaf þannig. Á síðari hluta 20. aldar stofnuðu verkamenn félag og veittu aðhald en síðan hefur margt breyst. Það hefur orðið mikil samþjöppun, stöðvarnar eru nú reknar af nokkrum stórfyrirtækjum og þær hafa verið færðar úr borgunum í smábæi á landsbyggðinni þar sem minni slagkraftur er í samtökum verkamanna. Svo er hópurinn sem vinnur verkin kannski viðkvæmari en í denn, margir ólöglegir innflytjendur frá Suður-Ameríku. 

Alltaf einhver nálægt þegar hún hóstaði

Fyrirtækin segjast hafa staðið sína plikt gagnvart starfsmönnum en starfsmenn hafa oft aðra sögu að segja. Þeir hafi jafnvel unnið vikum saman veikir og vinnuveitendur ekki hlustað þegar þeir greindu frá einkennum. Það var skimað fyrir hita og ef hann var undir mörkum var fólki ráðlagt að halda áfram að vinna. Alltaf þegar ég hóstaði var annað hvort einhver við hliðina á mér, eða fyrir framan mig, segir kona í samtali við Bloomberg, allir vinnufélagar hennar hafi veikst. Starfsmaður sem vann við hlið manns sem síðar greindist með sjúkdóminn viðraði áhyggjur sínar við mannauðsdeild framleiðslurisans Tysons Foods. Hann fékk þau svör að hann væri öruggari í vinnunni en úti í búð. 

Ákvað að halda út fram að starfsafmælinu

Í umfjöllun fjölmiðlaveitunnar Bloomberg er sagt frá Rafael Benjamin, innflytjanda frá Dóminíska lýðveldinu. Þegar smit fóru að koma upp í pakkhúsum víða um landið hvöttu uppkomin börnin hans hann til að vera heima, þó það gæti kostað hann starfið. Benjamin ákvað að halda út til tíunda apríl, þá ætti hann 17 ára starfsafmæli hjá svína- og nautakjötssframleiðslustöð Cargill Inc. í smábænum Hazleton í Pennsylvaníu og yrði búinn að vinna sér inn rétt til fulls ellilífeyris. Fólk fór að veikjast á vinnustað hans í mars, orðrómur gekk um að það væri kórónuvírusinn en yfirmenn báru það til baka og báðu starfsmenn að vera ekki að ræða það hvort hinn eða þessi samstarfsmaður kynni að vera smitaður. Álagið á Benjamin jókst eftir því sem færri starfsmönnum var til að dreifa. Vikurnar liðu. Benjamin hélt áfram að mæta til vinnu en viðurkenndi í símtölum við börn sín að hann yrði sífellt áhyggjufyllri, hann hafði þó ekki yfirsýn yfir hversu alvarlegt ástandið var.

Einn daginn mætti hann með andlitsgrímu sem börnin hans höfðu útvegað honum, yfirmaður hans bað hann að taka hana niður, það mætti ekki skapa óþarfa hræðslu á vinnustaðnum. Fleiri starfsmenn í kjötpökkunarbransanum höfðu fengið svipuð fyrirmæli, en yfirmennirnir vöppuðu jafnvel um framleiðslurýmið með skurðstofugrímur af bestu gerð. 

Laugardaginn fjórða apríl hringdi Benjamin sig inn veikan, með hita og hósta. Á mánudegi var hann fluttur á sjúkrahús. Þann tíunda apríl, þegar Benjamin átti starfsafmæli, lá hann í öndunarvél á gjörgæsludeild. Níu dögum síðar lést hann. Ef við hefðum vitað hvernig ástandið var hefði hann ekki verið þarna, sögðu börnin hans í samtali við Bloomberg, ekki fyrri 400 dollara á viku. 

Hættu að taka sýni úr fólki í kjötvinnslugeiranum

Samkvæmt stéttarfélagi verkamanna í matvælageiranum höfðu 130 af 900 starfsmönnum stöðvarinnar greinst með kórónuveirusmit þann 7. apríl. Forsvarsmenn stöðvarinnar vildu þó ekki veita upplýsingar um fjölda smita. Vikuna sem Benjamin veiktist var stöðinni í Hazleton lokað til að hægt væri að sótthreinsa hana og setja upp skilrúm á milli starfsmanna. Það var skortur á veirupinnum og sjúkrahúsin hættu að prófa fólk úr pökkunargeiranum. „Ef þú vinnur í kjötvinnslunni getur þú reiknað með því að vera smitaður,“ var viðkvæðið. Í smábænum Hazleton búa álíka margir og Reykjanesbæ og einn af hverjum þrjátíu bæjarbúum hafa greinst smitaðir, margir ættaðir frá Dóminíska lýðveldinu eins og Rafael Benjamin. Það eru mörg framleiðslufyrirtæki í bænum og það komu víðar upp hópsmit en hjá Cargill.

Mánuður afneitunar

Í umfjöllun Bloomberg segir að marsmánuður hafi verið tími afneitunar og þöggunar í kjötvinnslustöðvunum, verkamenn hafi smitast við færibandið eða í búningsklefum og borið smitið með sér heim. Dæmi eru um að helmingur starfsmanna stórra stöðva hafi smitast. Starfsemi margra stöðva skertist, sumar þurftu að loka.

Trump greip í taumana til að tryggja kjötframboð

epa08399164 United States President Donald J. Trump speaks during a virtual Town Hall at Lincoln Memorial in Washington, DC, USA, 03 May 2020.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SIPA USA POOL
Donald Trump.

Bandaríkjamenn borða mikið af kjöti, meira en Evrópubúar eða nágrannar þeirra í Kanada og þeir vilja það ódýrt, borga minna fyrir það. Í Bandaríkjunum hefur ekki orðið önnur eins röskun á kjötframboði frá tímum seinni heimsstyrjaldar. Framleiðsla á nauta- og svínakjöti dróst saman um 40% í apríl. Í lok apríl birti stærsta kjötvinnslufyrirtæki Bandaríkjanna, Tyson Foods, heilsíðuauglýsingu í blöðum, með viðvörunarorðum: „Framleiðslukeðjan er að rofna“. Tveimur dögum síðar virkjaði Donald Trump neyðarákvæði sem skyldar pökkunarstöðvarnar til að halda áfram starfsemi, í því skyni að tryggja matvælaöryggi. Ákvörðunin var í andstöðu við niðurstöðu sumra ríkja og forstöðumanna ákveðinna pökkunarstöðva sem vildu hafa lokað um tíma af öryggisástæðum. Gagnrýnendur segja öryggi verkamanna stefnt í voða, hætt við fleiri hópsýkingum. Það hafi ekki verið ráðist í víðtækar prófanir og því lítið vitað um hættuna á samfélagssmiti. Stjórnvöld hafa heitið því að útvega starfsmönnum viðeigandi öryggisbúnað en atvinnumálaráðuneytið íhugar líka að verja fyrirtækin fari starfsmenn í mál. 

Framleiðslan á herðum ólöglegra innflytjenda

Mynd með færslu
 Mynd: us department of agriculture
Innflytjendur við vinnu í Bandaríkjunum.

Skyndilega er öllum orðið ljóst að án pappírslausra innflytjenda sem vinna við að pakka kjöti eða tína grænmeti og ávexti á ökrunum væir erfitt að halda matvælaframleiðslu gangandi. Talið er að yfir helmingur starfsmanna í þessum geirum sé pappírslaus, jafnvel allt að 75%. Þetta er fólk sem oft hefur dvalið árum saman í landinu og stofnað þar fjölskyldu en hættan á brottvísun vofir alltaf yfir því. Sumir hafa nú fengið passa frá stjórnvöldum, í passanum kemur fram að þeir séu mikilvægir framlínustarfsmenn og að ekki megi vísa þeim brott, ekki eins og er. 

Breytist viðhorfið?

Tino er frá Mexíkó og hefur starfað á ökrunum í 17 ár, tínir tómata á haustin og melónur á sumrin. Bréfið frá heimavarnarráðuneytinu, þetta um mikilvægi hans, er samanbrotið í veskinu hans, á bak við mynd af fjölskyldunni. Hann segist í samtali við New York Times enn óttast að vera sendur úr landi, stjórnvöld gætu skipt um skoðun á morgun, en bréfið vekti með honum ákveðna von um að hann fái dvalarleyfi. Hann er þó líka hræddur við að smitast af veirunni, og spyr sig hvort hann ætti að halda heim til Oaxaca, hann vilji frekar deyja þar en í Bandaríkjunum. 

Alfredo Corchado lýsir skoðun sinni í pistli á vef New york times. Hann kom upphaflega til Bandaríkjanna sem ólöglegur innflytjandi frá Mexíkó og vann á ökrunum. Honum finnst að það þurfi að verðlauna þessa hópa sem nú leggja sig í hættu fyrir Bandaríkin, það þurfi að auðvelda þeim það ferli að fá dvalarleyfi í landinu, ekki ósvipað því sem áður tíðkaðist, að auðvelda innflytjendum sem gegnt höfðu herskyldu að öðlast ríkisborgararétt. Það gangi ekki að líta á þá sem einnota vinnuafl sem hægt sé að nota og henda svo úr landi. 

Það er spurning hvort veirutímarnir breyti viðhorfum stjórnmálamanna til þessa hóps, og hvort harðar yfirlýsingar Trumps um að brýnt sé að senda þennan óþverralýð úr landi séu af praktískum ástæðum meira í orði en á borði. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV