Frestun Hvalárvirkjunar mikil vonbrigði, en skiljanleg

08.05.2020 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Oddviti Árneshrepps segir frestun framkvæmda við Hvalárvirkjun mikil vonbrigði. Vesturverk lokaði skrifstofu sinni á Ísafirði og sagði upp tveimur starfsmönnum þar, sem þýðir að framkvæmdum við virkjunina verður frestað um óákveðinn tíma. Landvernd fagnar frestuninni og formaðurinn segir nú tækifæri til að skoða friðlýsingu á svæðinu enn frekar.

Lokaði og sagði upp fólki

Verktakafyrirtækið Vesturverk hefur lokað skrifstofu sinni á Ísafirði og sagt upp tveimur starfsmönnum. Er þetta gert vegna markaðsaðstæðna og á að vera tímabundið. Framkvæmdum við Hvalárvirkjun verður því frestað um óákveðinn tíma. Forsvarsmenn HS Orku, stærsta eiganda Vesturverks, segja aðstæður á markaði svo erfiðar að þetta hafi verið lendingin, en undirstrika að ekki hafi verið fallið frá áformum um virkjunina. 

Hélt að málinu yrði lokið á kjörtímabilinu

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, segir þetta vissulega mikil vonbrigði, en skiljanlegt í ljósi aðstæðna. Raforkuverð fari lækkandi og hálfur heimurinn sé lamaður vegna COVID. 

„Þetta kemur niður á okkur eins og öðrum. Ég er voða vonsvikin, ég verð alveg að segja það. Ég hélt að þetta mundi verða til lykta leitt á þessu kjörtímabili, og það eru ekki horfur á því að það geti orðið en þó veit maður ekki, það er spurning hvenær hjólin fara að snúast aftur,” segir Eva.  

Sjö kærur og vonir um friðlýsingu

Hún segir að Hvalárvirkjun sé í raun mun meira mál en margir geri sér grein fyrir því rafmagn á Vestfjörðum sé ekki nægt og aðstæður erfiðar. 

„Þannig að það eru allir, held ég, á Vestfjörðum frekar ósáttir með þetta.”

Ekki kemur á óvart að náttúrusamtökin Landvernd fagna þessu, en Tryggvi Felixson, formaður samtakanna, segir að frestunin feli í sér enn frekari tækifæri til að skoða hugmyndir um friðlýsingu á svæðinu.  Eva hefur ekki áhyggur af því og undirstrikar að landið sé í einkaeigu. 

„Þetta er líka eignaréttur fólks og það á að geta varið hann. Þeir sem eru ekki hlyntir því að búa til friðland þarna fyrir norðan þeir gera það ekkert þó að einhver annar segir að það gæti verið gott að nota tímann í það. Svo eru það líka þessi mál sem liggja fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar liggja nú fyrir einar sjö kærur. Það er náttúrulega ágætt að nota tímann til að fá lúkningu í þau mál,” segir Eva. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi