Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm rokkuð og rómantísk á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Epic - Facebook

Fimm rokkuð og rómantísk á föstudegi

08.05.2020 - 10:25

Höfundar

Nú er það rokkið og samkvæmt síðustu athugun er það með mjög góðu lífsmarki og sumir myndu segja í hressara lagi þó það sé auðvitað skammt í blúsinn. Í boðið mæta dáðadrengir frá Dublin, plata ársins hingað til, höfuðpúðar á bílsæti, uppáhaldshljómsveit Iggy Pop og þunglyndur Ástrali.

Fontaines D.C. – A Heroes Death

Dáðadrengirnir frá Dublin koma loksins með nýja plötu fyrir okkur rokkþyrstan almúgan í sumar en plata þeirra, Dogrell, þótti vera með því allra hressasta á árinu 2019. Lagið A Heroes Death er virkilega hressandi og titillag þessarar nýju sem kemur út í lok júlí ef engisprettuplága verður þá ekki búin að leggja jörðina í eyði.


Fiona Apple – Shameika

Það allra heitasta hjá tónlistarnördum á þessum síðustu og verstu er nýja platan hennar Fíónu, Fetch the Bolt Cutters, sem fær vægast sagt ótrúlega dóma í tónlistarpressunni. Dómarnir, sem sumir öskra PLATA ÁRSINS, hafa skilað sér í sölu því platan fór beint í fjórða sæti Billboard þegar hún kom út og selst líka vel í öðrum enskumælandi löndum.


Car Seat Headrest – Martin

Önnur plata sem sumir reita hár sitt og skegg yfir þessa dagana er ný plata hljómsveitar Willd Toledo, Car Seat Headrest, sem kallast Making a Door Less Open. Will hefur sagt að hann hafi neytt sjálfan sig til þess að hlusta á meira popp og léttmeti áður en platan var gerð en hún hefur verið fimm ár í smíðum þannig að líklega er það bara bull.


Protomartyr – Worm In Heaven

Iggy Pop kallar Protomartyr besta band Bandaríkjanna um þessar mundir og þeir eru vissulega virkilega hressandi. Í laginu Worm In Heaven sem verður á nýju plötunni þeirra, Ultimate Success Today, eru þeir kannski pínkuponsulítið rólegri en oft áður en krafturinn er þarna kraumandi og seigfljótandi undir niðri.


Nick Cave – Cosmic Dancer

Nýjasta trix Nicks Cave er útgáfa hans á snilldarlagi Marcs Bolan og T-Rex, Cosmic Dancer. Nick er alveg sultuslakur og blúsaður eins og hann er búinn að vera undanfarið og hægir virkilega á myndinni, sem fer reyndar laginu bara alveg ágætlega, en það verður að finna á væntanlegri stjörnum prýddri heiðursplötu sem er væntanleg í haust og heitir AngelHeaded Hipster: The Songs of Marc Bolan and T.Rex


Fimman á Spottanum