Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bolsonaro sendir herinn til verndar Amazon

08.05.2020 - 01:38
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, skipaði hernum að takast á við skógarelda og skógarhögg í Amazon. Eyðing skóganna fyrstu þrjá mánuði ársins er þegar 50 prósentum meiri en hún var á sama tíma í fyrra, eða nærri 800 ferkílómetrar. 

Skipun forsetans tekur gildi 11. maí og stendur til 10. júní. Herinn á að vera til staðar á verndarsvæðum, á löndum frumbyggja og öðru landi í eigu hins opinbera í Amazon.

Bolsonaro var gagnrýndur af þjóðarleiðtogum og umhverfisverndarsinnum víða um heim þegar skógareldarnir geisuðu í fyrra. Þá loguðu meiri eldar en nokkru sinni í regnskóginum, og þótti Bolsonaro gera lítið til þess að stemma stigu við þeim. Nú hefur hann undirritað tilskipun þess efnis að herinn fari í fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að takmarka glæpi gegn umhverfinu, þá helst ólöglegu skógarhöggi og skógareldum.

Samkvæmt mælingum út frá gervihnattamyndum var yfir tíu þúsund ferkílómetrum skóglendis eytt í Amazon í fyrra. Það er í fyrsta sinn sem eyðing skóga fer yfir tíu þúsund ferkílómetra frá því mælingar hófust árið 2008. Ólöglegt skógarhögg, námuvinnsla og landbúnaður á vernduðu landsvæði eru helstu ástæður eyðingarinnar. 

Bolsonaro hefur lýst áhuga sínum á að gera aðgengi að skóglendi til iðnaðar auðveldara. Hann segir að frumbyggjaþjóðir eigi að njóta góðs af náttúruauðlindum á landsvæðum þeirra.