
Skepnum bjargað úr brennandi fjárhúsi
Slökkvistarf gekk vel að sögn mbl.is, og var búið að slökkva í síðustu glæðunum rétt rúmum klukkutíma eftir að tilkynning barst. Skepnur voru í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Þeim var öllum bjargað og engum mönnum varð heldur meint af.
Uppfært 07.05. klukkan 06:21: Lögreglan á Suðurlandi segir á Facebook-síðu sinni að þegar hún kom á vettvang voru vegfarendur sem áttu leið hjá og nágrannar komnir íbúum til aðstoðar. Útihúsin urðu alelda á skömmum tíma. Þar sem sauðburður stendur nú sem hæst voru kindar sem komnar eru að burði hýstar í fjárhúsunum. Íbúum og aðstoðarmönnum þeirra tókst að bjarga þeim flestum, en minnst þrjár kindur og fjögur nýborin lömb drápust að sögn lögreglunnar. Slökkvistarf gekk vel, og var því lokið eftir um hálfa aðra klukkustund.
Slökkvilið Víkur vaktaði útihúsin fram á nótt í öryggisskyni. Eldsupptök eru ókunn en rannsókn á þeim stendur nú yfir.