Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið tekjufall hjá Skútustaðahreppi

07.05.2020 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Ekki er búist við því að ferðaþjónustan í Mývatnssveit taki almennilega við sér á ný fyrr en sumarið tvöþúsund tuttugu og eitt. Tekjufall Skútustaðahrepps er mikið og sveitarfélagið þarf að taka lán fyrir framkvæmdum í sumar.

Í svartsýnustu spá sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er gert ráð fyrir að sveitarfélagið geti misst allt að 25 prósent af heildartekjum ársins. Spáð er 30 prósenta atvinnuleysi þar í maí.

Halda sig við framkvæmdir og taka lán

Sveitarstjórn hafði ákveðið að ráðast í miklar viðhalds- og nýframkvæmdir á þessu ári. Þær átti að greiða úr sjóðum og með veltufé sveitarfélagsins, en nú er ljóst að það tekst ekki. „En sveitarstjórn var algerlega á einu máli um að hluti af viðspyrnuaðgerðum okkar væri að halda okkur við þessar framkvæmdir og taka þá einfaldlega lán fyrir þeim,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Ferðaþjónustan taki aftur við sér sumarið 2021

Þá er til skoðunar að ráða sumarstarfsfólk í samstarfi við Vinnumálastofnun, Landsvirkjun og fleiri og Þorsteinn segir útlit fyrir að það gangi allt eftir. En stóra stoðin í atvinnumálum í Mývatnssveit er ferðaþjónustan og veltan þar næstu mánuði verður ekki nema brot af því sem áætlað var. „Við höfum stillt sviðsmyndinni þannig upp að ferðaþjónustan fari aftur af stað sumarið 2021. Ef það gerist fyrr þá er það bara mikill plús,“ segir hann.

Líta á þetta sem tímabundið ástand

Og hann segir að flestöll fyrirtæki í ferðaþjónustunni verði starfrækt í sumar en veturinn geti orðið erfiður. En þrátt fyrir allt sé hugur í fólki og menn viti að þetta er tímabundið ástand. „En ég hef alveg fulla trú á því að sveitarfélagið og rekstraraðilar muni ná vopnum sínum á ný. Enda er hérna glæsileg ferðaþjónusta sem búið er að byggja upp með myndarbrag undanfarin ár,“ segir Þorsteinn.