Söngleikurinn var frumsýndur í Borgarleikhúsinu í mars, rétt áður en samkomubann skall á. Í auglýsingum fyrir sýninguna var gömul mynd af Bubba með sígarettu í munnvikinu. Síðar var sígarettan var fjarlægð úr auglýsingum.
Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í morgun og haft eftir Pétri Rúnari Heimissyni, markaðsstjóra Borgarleikhússins, að margar ábendingar hafi borist og raddir heyrst um að myndin gæti stuðlað að reykingum. Eftir íhugun hafi verið ákveðið að fjarlægja sígarettuna.
„Lögum samkvæmt má ekki auglýsa tóbak opinberlega. Þannig að við vorum að, skilst mér, brjóta lög með því að hafa mynd af mér með sígarettu á gaflinum,“ segir Bubbi um myndina á gafli leikhússins sem var breytt. „Og lögum segja bara þetta má ekki og maður verður að beygja sig undir það.“
Bannað að sýna tóbak í auglýsingum
Það segir í tóbaksvarnarlögum að bannað sé að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi. „Mér fannst þetta engin lending [að breyta myndinni] en þetta er bara hundsbit og stundum verður maður að taka hundsbitum,“ segir Bubbi.
Bubbi segir alveg ljóst að þetta sé ritskoðun. „Auðvitað er þetta ritskoðun. Það er auðvitað líka ritskoðun að lögin skuli banna þetta. Þetta er svona svipað og ég væri eltandi fólk sem væri að veipa eða reykja einhvers staðar og segði „hættu!“ og myndi rífa af þeim sígaretturnar og garga á fólk sem er á götuveitingastöðum og drekka vín: „þetta má ekki, þetta bara gengur ekki börnin geta farið að drekka!“ segir Bubbi í léttum dúr.