Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bubbi um rettuna: „Auðvitað er þetta ritskoðun“

Mynd með færslu
Myndin fyrir utan Borgarleikhúsið. Áður var Bubbi með sígarettu í munnvikinu. Hún hefur verið fjarlægð. Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Bubbi um rettuna: „Auðvitað er þetta ritskoðun“

07.05.2020 - 15:59

Höfundar

Sígaretta var fjarlægð af öllu helsta markaðsefni söngleiksins Níu líf í Borgarleikhúsinu sem fjallar um ævi Bubba Morthens. Bubbi segir þetta vera hundsbit sem hann verði að sætta sig við.

Söngleikurinn var frumsýndur í Borgarleikhúsinu í mars, rétt áður en samkomubann skall á. Í auglýsingum fyrir sýninguna var gömul mynd af Bubba með sígarettu í munnvikinu. Síðar var sígarettan var fjarlægð úr auglýsingum. 

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í morgun og haft eftir Pétri Rúnari Heimissyni, markaðsstjóra Borgarleikhússins, að margar ábendingar hafi borist og raddir heyrst um að myndin gæti stuðlað að reykingum. Eftir íhugun hafi verið ákveðið að fjarlægja sígarettuna. 

„Lögum samkvæmt má ekki auglýsa tóbak opinberlega. Þannig að við vorum að, skilst mér, brjóta lög með því að hafa mynd af mér með sígarettu á gaflinum,“ segir Bubbi um myndina á gafli leikhússins sem var breytt. „Og lögum segja bara þetta má ekki og maður verður að beygja sig undir það.“

Bannað að sýna tóbak í auglýsingum

Það segir í tóbaksvarnarlögum að bannað sé að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi. „Mér fannst þetta engin lending [að breyta myndinni] en þetta er bara hundsbit og stundum verður maður að taka hundsbitum,“ segir Bubbi.

Bubbi segir alveg ljóst að þetta sé ritskoðun. „Auðvitað er þetta ritskoðun. Það er auðvitað líka ritskoðun að lögin skuli banna þetta. Þetta er svona svipað og ég væri eltandi fólk sem væri að veipa eða reykja einhvers staðar og segði „hættu!“ og myndi rífa af þeim sígaretturnar og garga á fólk sem er á götuveitingastöðum og drekka vín: „þetta má ekki, þetta bara gengur ekki börnin geta farið að drekka!“ segir Bubbi í léttum dúr. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á öllum myndum inni í Borgarleikhúsinu er Bubbi enn með sígarettuna í munnvikinu og í bæklingum og á stuttermabolum. „Þar er ég bara með mína sígarettu, ég meina ég byrjaði að reykja sex ára og ég reykti til 2005.“ Þá bendir hann á að sýningin sjálf sé ekki ritskoðuð. Leikararnir séu með rör í munninum í staðinn fyrir sígarettur og segi ýmislegt, það sé ekki ritskoðað. 

Ætlar ekki að brjóta lög

Bubbi kveðst vera alfarið á móti forræðishyggju, bæði eins og hún birtist þarna sem og annars staðar. „Þannig að persónulega finnst mér þetta eins galið og hugsast getur en af því að ég geri mér grein fyrir því að lög eru lög, þó að mér finnist að einhver lög séu asnaleg, þá geri ég mér grein fyrir því að ef ég brýt þau, að þá er ég ábyrgur og þarf að svara fyrir og það nennir enginn að standa í slíku.“

Bubbi spyr hvað gerist næst og hvort það verði ef til vill bannað að reykja í bíómyndum. „Hvað ætla menn að gera ef þú birtir mynd af James Dean með sígarettu á Facebook, verður hún tekin út?“