Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breyttu mynd af Bubba eftir ábendingar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Breyttu mynd af Bubba eftir ábendingar

07.05.2020 - 17:02

Höfundar

Eftir að auglýsingar um leiksýninguna Níu líf, sem fjallar um ævi Bubba Morthens, voru birtar fyrst, barst Borgarleikhúsinu nokkur fjöldi af athugasemdum því að hann var með sígarettu í munnvikinu á myndinni. Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir að það og sú staðreynd að Facebook, leyfi ekki myndir af sígarettum hafi orðið til þess að ákveðið var að fjarlægja sígarettuna af hluta af auglýsingaefninu.

Frumsýning var í mars, rétt áður en samkomubann skall á. Brynhildur segir að kynningarefnið hafi verið búið til fyrir hennar tíð sem leikhússtjóri. Þetta sé flott mynd af Bubba sem hafi verið birt í Samúel. „Ég held að það sé flestum ljóst að einu sinni reykti Bubbi Morthens. Hann gerir það ekki lengur. Við í leikhúsinu erum alltaf að segja söguna „einu sinni var“, segir hún. 

Sjálfur hefur Bubbi sagt að þetta sé hundsbit en að hann beygi sig undir þau lög sem gildi. 

Mynd með færslu
Upphaflega var kynningarefni Borgarleikhússins svona og Bubbi með sígarettu í munninum. Mynd: borgarleikhus.is

„Þannig er með algóritminn á Facebook að hann leyfir hvorki berrassað fólk né sígarettur þannig að við gátum ekki haft þessa mynd uppi,“ segir borgarleikhússtjóri. „Í stað þess að breyta öllu kynningarefninu þá tókum við þá afstöðu að taka sígarettuna út.“

Mynd með færslu
Myndin fyrir utan Borgarleikhúsið. Áður var Bubbi með sígarettu í munnvikinu. Hún hefur verið fjarlægð. Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Þá barst nokkur fjöldi af ábendingum vegna myndarinnar til leikhússins, meðal annars frá Krabbameinsfélaginu og fleirum um að birting myndarinnar væri brot á tóbaksvarnarlögum. „Ekki ætlum við að vera að hvetja til lýðheilsuspillandi athafna en myndin er íkonísk og við í leikhúsinu erum alltaf að segja þessa sögu einu sinni var. Þetta er tíðarandi, þetta er rosalega flott plakat. Við tókum bara afstöðuna að sígarettan þurfti að hverfa af Facebook þannig að við gerðum það líka ákveðnu vefefni.“ Brynhildur bendir á að þetta sé ekki ritskoðun á sýningunni. Í henni reyki Bubbi Morthens þó að hann hafi í dag hætt þeim ósið.

Myndin umtalaða af Bubba var birt í á forsíðu Samúel í október árið 1981.