16,5 prósent segjast henda rusli í klósettið

07.05.2020 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti - RÚV
Um 16,5prósent landsmanna segjast hafa hent einnota blaut- og sótthreinsiklútum og öðru rusli í klósettið. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Veitur fyrri hluta aprílmánaðar.

Mikill meirihluti sagðist hvorki henda klútum eða öðru rusli eins og eyrnapinnum, tannþræði, bómullarskífum, smokkum, túrtöppum, dömubindum eða innleggjum í klósettið. Rúmlega sextán prósent viðurkenndu hins vegar að hafa sturtað einhverju af þessu niður.

Fólk á aldrinum 35 ára til 44 ára reyndist líklegra til að henda rusli í klósettin en aðrir aldurshópar og af þeim reyndust karlar líklegri en konur.

Blaut- og hreinsiklútar og aðrar hreinlætisvörur eiga að enda í heimilissorpinu en ekki klósettinu, segir í tilkynningu frá Veitum. Greint var frá því í fréttum nýverið að skólphreinsistöð Veitna við Klettagarða í Reykjavík hafi orðið óstarfhæf vegna gríðarlegs magns af sótthreinsi-og blautklútum og öðru rusli sem hafði verið hent í salerni á veitusvæðinu. Af þessum sökum skapaðist mikið álag á búnað hreinsistöðvanna og þurfti að beina óhreinsuðu skólpi í sjó. 

Í könnunin Gallup var haft samband við tæplega þrjú þúsund íbúa,18 ára og eldri, handahófsvalda af öllu landinu. Svarhlutfall var 56,7 prósent. 

Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að rusl sem berst með fráveitunni í hreinsistöðvar sé sent til urðunar. Því sé mun betra að ruslið fari frekar út með heimilissorpinu í stað þess að fara í gegnum fráveituna með tilheyrandi álagi og kostnaðarsömum skemmdum á búnaði.