„Verð skarpari en missi húmorinn á lyfjum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Verð skarpari en missi húmorinn á lyfjum“

06.05.2020 - 12:15

Höfundar

Jón Gnarr var orðinn þrítugur þegar hann var loksins greindur með ADHD. Alla tíð hafði hann vanist því að samferðafólk hans og kennarar töldu hann latan og vitlausan en í dag segist hann eiga velgengni sína sem leikari og skemmtikraftur að miklu leyti röskuninni að þakka.

„Ég hef gleymt að mæta í beinar útsendingar“

Leikarinn, skemmtikrafturinn og rithöfundurinn Jón Gnarr sendir allan tölvupóst sem tengist vinnu, til að plana eða ræða eitthvað praktískt, á Jógu konuna sína. Ef hún er ekki með í ráðum á hann til að gleyma öllu sem rætt hefur verið og man engin loforð. Hann veit nú að þetta er ekki trassaskapur, hann er með ADHD, ofvirkni og athyglisbrest, sem veldur því að hann er oft utan við sig. „Þegar þetta hefur gerst hefur það oft haft óþægilegar afleiðingar. Ég hef gleymt því að mæta í beinar útsendingar,“ segir hann. Hann ræddi líf með röskun í hlaðvarpinu Lífið með ADHD í umsjón Karitasar Hörpu Davíðsdóttur.

Stærsta verkefnið að líma saman brotna sjálfsmynd

Jón var kominn á fullorðinsár þegar hann fékk loks greiningu. Hann segir að það sé algengt að fólk greinist seint glími við laskaða sjálfsmynd í einhvern tíma. „Maður kemur öðrum fyrir sjónir sem eigingjörn manneskja sem er sama um annað fólk, kærulaus eða ábyrgðarlaus en það er ekki svo. Stærsta verkefnið fyrir fullorðið fólk af minni kynslóð er að líma aftur saman brotna sjálfmynd,“ segir hann. Margir leiti leiða til að lækna eða deyfa sjálfa sig sem geti haft alvarlegar afleiðingar. „Fólk fer að reyna að laga sig sjálft. Nota lyf til að reyna að vera eðlilegt, og mjög oft leiðist fólk út í fíknisjúkdóma og jafnvel afbrot.“ 

Fínt orð yfir að vera þroskaheftur

Sjálfur var Jón aðeins þriggja ára þegar foreldrar hans áttuðu sig á því að ekki væri allt með felldu. Þau leituðu læknis því barnið hegðaði sér að þeirra mati óeðlilega. Þeim var vísað á Barna- og unglingageðdeild þar sem hann var í dagvistun undir eftirliti einn vetur. Einhvers konar greining fékkst loks en hún hjálpaði lítið. „Þar kemur greiningin, árið 1973. Ég er greindur vanhæfur til aðlögunar, sem var læknisfræðilegt heiti sem var í notkun á þeim tíma,“ segir hann. „Þetta sagði ekki neitt þannig séð en þeim fannst þetta „fansí“ orð yfir að ég væri þroskaheftur.“

Jón var orðinn tvítugur þegar hann heyrði fyrst minnst á ADHD og þegar hann kynnti sér málið fór ýmislegt að skýrast. „Mér fannst þetta vera það sem plagaði mig," segir hann. Það var þó ekki fyrr en um áratug síðar sem hann fékk loksins staðfestinguna sem hann hafði beðið eftir. „Ég hef síðan litið á ADHD sem hluta af mínum persónuleika, hver ég er.“

Kennarnir sögðu að hann væri tregur

Jón hóf grunnskólagöngu sex ára og námsmatið var alltaf mjög svipað, hann var kallaður helst til hávær og framför sögð hæg. Jón, sem er lesblindur, átti ekki erfitt með að lesa en hann átti erfitt með að skrifa og læra stafi. Útskýringuna á því töldu kennararnir vera leti og ábyrgðarleysi og þótti ljóst að hann vandaði sig vísvitandi ekki nógu mikið. 

Hann átti í basli með stærðfræði og skildi hvorki margföldunartöfluna né deilingu. Hann gafst loks upp að mestu enda fannst honum glíman við stærðfræðina helst til þess fallin að velta honum upp úr vanmætti sínum. Hann frétti að kennarinn hefði lýst því yfir að hann væri tregur þegar hann heyrði ekki til. „Það var enginn sem sagði það beint við mig en það hefur líklega verið það sem margir töldu, að ég væri ekki greindur,“ segir hann enda ekki mikil meðvitund um lesblindu, athyglisbrest eða aðrar raskanir sem þekkjast í dag.

Hefði getað verið í skóla í Tyrklandi

Í gagnfræðaskóla gafst hann endanlega upp. „Ég hefði alveg eins getað farið í skóla í Tyrklandi. Einkunnirnar úr barnaskóla voru ekki góðar svo ég var settur í tossabekk og ég held að þessi breyting, að skipta um skóla, hafi kippt undan mér fótunum.“ Hann mætti illa og fór að hanga á Hlemmi frekar en að láta sjá sig í tímum því honum fannst það tilgangslaust. Og kennararnir virtust á sama máli. „Ég held að þeir hafi ekki merkt fjarvist við mig í kladdann.“ Þegar önnur börn fóru að furða sig á því að Jón kæmist upp með að vera víðs fjarri kennslustundum en ekki þau sögðu þau að það giltu aðrar reglur um Jón en hin börnin. „Kennarinn sagði: Það skiptir engu máli hvort Jón er hérna eða ekki, hann lærir ekki neitt.“

„Hey, leggið mig í einelti“

Jón var félagslega einangraður og varð fyrir aðkasti. Strákarnir voru í fótbolta en hann skildi ekki leikinn. Hann var með Prins Valíant klippingu sem þótti afar púkaleg og þykk gleraugu sem mamma hans valdi og voru alls ekki í tísku. „Ef þú varst að leita að einhverjum til að leggja í einelti blikkaði ég rauðum ljósum: Hey leggið mig í einelti," segir hann. „Eftir á að hyggja var það helsta ástæða þess að ég hætti að mæta í skólann. Ofbeldið gat orðið mjög harkalegt.“

ADHD annað orð yfir listamann

En fólk með ADHD býr oft yfir hæfileikum umfram aðra, vegna röskunarinnar. Það hefur Jón lært og hann segir að ADHD sé stór hluti af því sem gerir hann að þeim leikara, skemmtikrafti og rithöfundi sem hann er. „Ég segi með ADHD-fólk að mér finnst það annað orð yfir listamann. Fólk sem er skilgreint með ADHD hefur oft gríðarlega mikla hæfileika sem skólakerfið metur mjög lítils.“

Og ómyrkur í máli um skólakerfið. Þótt hann hafi átt erfitt með bóklegt nám hefði hann haft bæði unun og gagn af því sem hann fékk aldrei að læra. Margt af því er hann viss um að hefði reynst bæði honum og öðrum nemendum betur en annað í framtíðinni. „Ég hef oft talað um þetta, eins og með smíði. Mig langaði að læra smíði, vildi smíða kofa og á tímabili vildi ég smíða mér sverð og skjöld en ég lærði aldrei að negla nagla,“ segir hann. Í smíðatímum, sem voru takmarkaðir, lærði hann að smíða dýr úr krossviði og merkja með brennipenna en hann segist ekki hafa lært neitt gagnlegt að ráði. „Mér fannst svakalega gaman þegar smíðavellirnir komu og mig langaði að smíða kofa en ég kunni það ekki.“

Margt hefur þokast í betri átt í þessum efnum eftir því sem Jón segir en betur má ef duga skal. „Dóttir mín sem er 27 ára er lesblind og þetta er sama lesblinda og ég er með. Það hefur verið full vinna að sjá til þess að hún fái þann stuðning sem hún á rétt á að fá," segir hann. „Við höfum barist fyrir því að dóttir mín fengi aðstoð og núna er hún að klára nám í háskóla. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar en það mætti renna hraðar.“

Ekki síður mikilvægt að negla nagla en læra dönsku

Hann nefnir til dæmis að það væri eðlilegast, og myndi til dæmis gagnast mörgum með ADHD, ef meiri áhersla væri lögð á listnám í skólakerfinu. „Mig dreymdi um það sem krakki að fara í listaskóla þar sem maður lærir að negla nagla og mála mynd. Hvernig maður á að blanda og hvernig pensil maður á að nota,“ segir hann. Einnig finnst honum brýnt að meiri áhersla sé lögð á iðngreinar. „Ég held það sé ekki síður mikilvægt að læra að negla nagla en að læra dönsku," segir hann og hlær. „Og praktískir hlutir eins og að reka fyrirtæki, hvernig á að gera það? Ef við viljum að markmið skólans sé að búa okkur undir lífið þá ættum við að gera þetta.“

Í umræðunni um raskanir af ýmsu tagi er oft deilt um lyfjagjafir. Sjálfur hefur Jón prófað ýmis lyf við ofvirkni, þunglyndi og kvíða en ekkert hefur gagnast að hans mati. „Ég hef aldrei upplifað jákvæð áhrif af þessum lyfjum og ekki viljað halda áfram á þeim," segir hann. „Ég hef valið mér að lifa án lyfja. Ég ber fulla virðingu fyrir því að fólk noti lyf en mér finnst vanta umræðu um þá sem eru með ADHD en kjósa að nota ekki lyf.“

Taugaröskunin hluti af þeirri grein sem hann valdi sér

Á tímabili varð hann var við mikla fordóma fyrir lyfjunum og nytsemi þeirra. „Þetta var kallað dóp og sagt það væri verið að dópa börn en mér finnst til dæmis að þegar ég nota lyfin verð ég skarpari og með meiri athygli en ég missi svolítið húmor," segir hann. „Þessi taugaröskun mín er svo mikill hluti af því sem ég hef valið mér."

Hann segir að sig hafi lengi langað að opna á umræðuna um lyfjagjafir og tjá sig um sína reynslu af því að velja lífið án lyfjanna. „Ég er með alvarlegt mígreni og þarf að vera á lyfjameðferð við því. Það er líka ástæðan fyrir því að ég vil ekki taka mikið magn af lyfjum. Persónulegar aðstæður fólks eru svo mismunandi."

Karitas Harpa ræddi við Jón Gnarr í hlaðvarpinu Lífið með ADHD.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Við erum að fara að senda inn lag í Söngvakeppnina“

Mannlíf

„Mér leið oft ekki vel ef ég var of hvatvís“

Leiklist

Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi