Segir leigubílstjóra nánast beitta einelti

06.05.2020 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins segir stjórnsýsluna beita leigubílstjóra nánast einelti í kórónuveirufaraldrinum. Þeir fái ekki hlutdeildarbætur og aðeins atvinnuleysisbætur gegn því að þeir skili inn atvinnuleyfi sínu. Þau yrðu þá söluvara fyrir aðra. Hann skoraði á yfirvöld að bæta úr stöðu bílstjórana hið fyrsta.

Þetta kom fram í ræðu Þorsteins undir liðnum störf þingsins.  Hann sagði stéttina vera að fara verr út úr ástandinu en flestar aðrar.

Þorsteinn gerði einnig alvarlegar athugasemdir við að Samgöngustofa ætlaði að gefa út ný atvinnuleyfi í því ástandi sem nú ríkti. Stéttin væri með 5 til 10 prósent innkomu miðað við eðlilegt árferði.

Þingmaðurinn benti líka á að ólíkt strætisvögnum fengju leigubílar ekki undanþágu frá 2 metra reglunni. Mjög margir leigubílar væru af þannig stærð að tveggja metra reglan væri í heiðri höfð.  „Þetta þykir mér með miklum ólíkindum að ganga svona fram gegn einni stétt,“ sagði Þorsteinn sem skoraði á yfirvöld að bæta úr þessu hið fyrsta.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi