Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óáreiðanlegur dans Jordan

Mynd: EPA-EFE / EPA

Óáreiðanlegur dans Jordan

06.05.2020 - 09:25
ESPN heimildarþáttaröðin The Last dance hefur hlotið mikið lof fyrir þá innsýn sem hún veitir áhorfendum í síðasta leiktímabil Michael Jordan hjá Chicago Bulls. Hún þykir þó ekki dæmi um áreiðanlega blaðamennsku.

Á vef New York Times er að finna frábæra grein um tónlistina í nýrri heimildarþáttaröð ESPN og Netflix, The Last Dance. Í þáttaröðinni, sem segir frá síðasta leiktímabili stórstjörnunnar Michael Jordan með Chicago Bulls, er gullaldar hip hop einskonar gangvirki sögunnar. Hún er takturinn í frásögninni, staðsetur stemninguna og rífur allar hæðir aðeins hærra. Áhugaverðasti hluti greinar New York times er þó allra síðasta setningin, þar sem leikstjórinn Jason Hehir segir að Jordan hafi gefið honum nótur um þættina en ekkert tjáð sig um tónlistina. 

Gefið nótur er reyndar orðalag undirritaðrar. Á ensku stendur „offered feedback” svo augljóslega er þýðingin ekki nákvæm. Kannski fékk Jordan að sjá þættina fyrir birtingu, sagði „Fínir þættir maður,” og fór svo út að slá nokkrar kúlur, skjóta á körfu eða slá um sig með hafnaboltakylfunni. En kannski sagði hann: „Ég vil að þetta, þetta og þetta atriði sé klippt út.”

Michael Jordan er nefnilega ekki bara aðalviðfang The Last Dance, hann er líka einn af framleiðendunum.

„Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei"

Í viðtali við Wall Street Journal sagðist kvikmyndagerðarmaðurinn Ken Burns, ekki vera búinn að horfa á þættina. Hinsvegar myndi hann „aldrei aldrei aldrei aldrei” samþykkja að gera heimildarmynd undir þessum skilyrðum að eigin sögn. Sú þróun, að viðföng heimildarmynda taki þátt í framleiðslu efnisins er öfug við það sem þörf er á, sagði hann. 

„Ef þú ert þarna og hefur áhrif á að myndin sé yfirhöfuð gerð þýðir það að ákveðnir þættir sem þú vilt ekki að verði með í myndinni, verða ekki með. Punktur,” sagði Burns og hélt áfram: Þannig stundar maður ekki góða blaðamennsku… og svo sannarlega ekki góða sagnfræði.”

Hlutverk blaðamanna er að færa fólki áreiðanlegar upplýsingar. Þeir eru samtímaritarar sögunnar, fjórða valdið, og almenningur þarf að geta treyst á að störf þeirra séu unnin af hlutleysi. Algjört hlutleysi er auðvitað flókið og að margra mati er það jafnvel óframkvæmanlegt. 

En hlutleysi verður að vera markmiðið.

epa01338068 Documentary film maker Ken Burns speaks at the Investment Company Institute's (ICI) 50th annual general membership meeting at the Marriott Wardman Park Hotel, in Washington, DC, USA, 08 May 2008. ICI is the national trade association of the investment company industry.  EPA/MATTHEW CAVANAUGH
 Mynd: EPA
Ken Burns.

Áreiðanlegir sögumenn

Blaðamenn þurfa iðulega að feta þröngan krákustíg: vinna sér inn traust viðmælenda án þess að gefa afslátt af ritstjórnarlegu sjálfstæði. Þegar kemur að ítarlegum persónulegum viðtölum, eins og oft er raunin í heimildarmyndum, getur þessi jafnvægisdans reynst þrautin þyngri.

Viðmælendur eru beðnir um að afhjúpa sig, hleypa blaðamanninum inn á gafl og í sumum tilvikum, endurupplifa erfið augnablik í smáatriðum. Margir viðmælendur vilja setja ákveðin skilyrði fyrir slíku aðgengi. Kannski vilja þeir fá að sjá umfjöllunina áður en hún er birt. Kannski vilja þeir fá að ráða fyrirsögninni, við hverja aðra er talað, breyta einstaka setningum eftir á. Slíkar óskir eru algengar og skiljanlegar. Við viljum hafa stjórn á því hvernig fólk sér okkur. En einmitt þess vegna þurfa blaðamenn að geta staðið í lappirnar og sagt nei.

epa06541825 Michael Jordan (L), President of the Los Angeles Lakers Jeanie Buss (C), and Los Angeles Clippers Owner Steve Ballmer (R) converse at the 2018 All-Star game at the Staples Center in Los Angeles, California, USA, 18 February 2018.  EPA-EFE/MIKE NELSON  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jordan er einn af framleiðendum myndarinnar.

Við erum ekki áreiðanlegir sögumenn um eigin líf. Michael Jordan er það ekki heldur. Og með fjárhagstengslum við The Last Dance hefur áreiðanleika kvikmyndargerðarmannana einnig verið kippt í burtu.

Sjónarhorn með slagsíðu

Það gilda ekki fyllilega sömu siðareglur um Jón eða séra Jón, opinberar persónur og óopinberar og í raun gilda engar einar opinberar reglur. Fréttastofur og fjölmiðlar geta og ættu að setja sér reglur til að stuðla að hlutleysi en stundum þurfa blaðamenn að treysta á eigið innsæi. Ein mikilvægasta og augljósasta reglan snýr þó að því að viðmælandi ætti aldrei að kosta umfjöllun um sjálfa sig. 

Hvort sem Jordan hafði bein afskipti af gerð The Last Dance eða ekki skiptir í sjálfu sér ekki máli lengur. Við munum aldrei geta verið viss. Fjárhagstengslin gefa í skyn slagsíðu og óhlutdrægni sem ekki er hægt að líta framhjá. The Last Dance er frábær afþreying en það sem hefði getað verið saga séð frá sjónarhornum ótal viðmælenda ber nú óhjákvæmilega að líta á sem sögu frá sjónarhornum sem Micahel Jordan er búinn að samþykkja.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Michael Jordan blöskraði eiturlyfjapartý liðsfélagana

Körfubolti

LeBron tók fram úr Michael Jordan

Erlent

Michael Jordan gaf andvirði 220 milljóna króna

Körfubolti

Kobe er „Michael Jordan“ okkar kynslóðar