Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ný aðalskipulagsbreyting lækkar háhýsin á Oddeyrinni

06.05.2020 - 14:41
default
Umrætt svæði er hægra megin Gránufélagshúsið (svarta húsið) Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Skipulagsráð Akureyrar hefur kynnt nýja tillögu að aðalskipulagsbreytingu á Oddeyrinni. Fyrri tillaga leyfði allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishús. Ný tillaga lækkar leyfða hámarkshæð niður í um átta hæðir.

Í byrjun október samþykkti bæjarstjórn á Akureyri tillögu um breytingu á aðalskipulagi fyrir Oddeyri vegna hugmynda frá verktakanum SS Byggi sem vill byggja fjölbýlishús þar. Sú breyting gerði ráð fyrir að á tilteknum reit á eyrinni mætti reisa allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishús með atvinnustarfsemi á neðstu hæð. Viðbrögð íbúa voru misjöfn og 36 athugasemdir bárust, ásamt umsögnum frá opinberum stofnunum. 

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur nú kynnt nýja tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna svæðisins en það er að mestu skilgreint sem athafnasvæði í dag. 

Byggingar ekki hærri en 25 metrar yfir sjávarmáli

Í tillögunni er sett skilyrði um að nýjar byggingar verði ekki hærri en 25 metrar yfir sjávarmáli og að gólfkóti verði að lágmarki 2,2 metrar yfir sjávarmáli. Því verði heimilt að reisa 6-8 hæða hús. Gert er ráð fyrir íbúðum á efri hæðum en skilyrði sett um að 25% rýmis á jarðhæð að lágmarki, utan við bílageymslu, verði verslunar- og þjónustustarfsemi. Gefinn er kostur á að skila inn athugasemdum til 27. maí. Þetta kemur fram á Akureyri.is.

Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
Hugmyndir frá því í október af útliti háhýsanna