Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Mikilvægt að sýna líka sóknarhug“

06.05.2020 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Akureyrarbær ætlar að verja 40 milljónum í að efla ferðaþjónustu og menningarstarfsemi fyrir sumarið vegna faraldursins. Formaður stjórnar Akureyrarstofu segir óvissuna mikla en einmitt þess vegna sé mikilvægt að sýna sóknarhug.

Akureyrarstofa hefur unnið að undirbúningi aðgerða í ferða- og menningarstarfsemi fyrir sumarið, í ljósi óvenjulegra aðstæðna. Í undirbúningsferlinu var rætt við fulltrúa úr ferðaþjónustu, menningarstarfi og viðburðahaldi. Akureyrarbær samþykkti í gær að veita 40 milljónir til verkefnanna.

Sérstakt markaðsátak fyrir Akureyri

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu, segir aðgerðirnar þrenns konar: „Í fyrsta lagi er um að ræða sérstakt markaðsátak fyrir Akureyri á innanlandsmarkaði. Þar er horft til þess að byggja markaðssetninguna á sérstöðu okkar, sem er nálægð við náttúruna og endalausir útivistarmöguleikar, ásamt iðandi mannlífi og verslun.“ Þá verði sérstök áhersla lögð á að kynna Hrísey og Grímsey. 

Í öðru lagi á að auka og efla framboð afþreyingar. Sérstökum styrktarsjóði með breiða skírskotun verður komið á fót með það að markmiði að þróa fjölbreytt framboð afþreyingar sem hentar fólki á öllum aldri. Í þriðja lagi verður sett auka fjárveiting í menningarsjóð sem nýtist í skapandi verkefni og menningarviðburði sem þurfa ekki að tengjast beint markaðs- og vöruþróunarátakinu og geta komið til framkvæmda eftir sumarið.

Vilja efla lausnamiðaða einstaklinga

Með átakinu er vonast til þess að lausnamiðað og skapandi fólk horfi til þess hvernig hægt sé að bregðast við þessari óvenjulegu stöðu. „Staðan er auðvitað þröng og ótrúlega mikil óvissa en þess vegna er mikilvægt að sýna líka sóknarhug,“ segir Hilda Jana.