Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenski ferðamaðurinn nú aðalviðfang ferðaþjónustunnar

Mynd:  / 
Ferðaþjónustufyrirtæki sem ekki eru lögst í dvala laga sig nú að nýjum og tiltölulega lítt þekktum kúnnahópi, íslenskum ferðamönnum. Þeir eru taldir tilboðsdrifnir og eru gjarnir á að elta sólina. Þó einhver bið verði á markaðsátaki stjórnvalda eru fyrirtækin komin á fullt í undirbúningi og tilboðum rignir yfir neytendur. Útlit er fyrir að kórónuveirufaraldurinn hamli ferðalögum að einhverju leyti og fyrirtæki eru mörg enn óviss um hvort það borgi sig að hafa opið.

Vona að innanlandsmarkaðurinn mildi höggið

Ferðaþjónustufyrirtæki standa í ströngu, þau endurskipuleggja fjárhaginn og rýna í aðgerðapakka stjórnvalda en þau þurfa líka að þýða vefsíðurnar sínar sem flestar hafa verið á ensku yfir á íslensku, færa verðin yfir í íslenskar krónur, skoða hvernig best er að uppfylla reglur um sóttvarnir og aðlaga ferðirnar að þörfum nýs aðalmarkhóps. Ferðamálastofa hefur líka hvatt fyrirtæki til að kenna starfsfólki grunnorðaforða í íslensku svo hægt verði að taka á móti heimamönnum á þeirra tungumáli. Íslendingar eru fáir, um 200 þúsund Íslendingar á faraldsfæti ná ekki að fylla skarð milljón erlendra ferðamanna en það er von fólks í ferðaþjónustu að með því að höfða til innanlandsmarkaðarins verði hægt að halda í það starfsfólk sem eftir er, jafnvel koma út í litlum plús eða fá upp í fastan kostnað. 

Hrifnastir af sundi og jarðböðum

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála segir nokkuð vitað um ferðahegðun Íslendinga en ekki nóg. „Íslendingar hafa vissulega alltaf verið markhópur margra fyrirtækja í ferðaþjónustu og við þekkjum ferðavenjurnar svolítið vegna þess að Ferðamálastofa hefur framkvæmt árlega ferðavenjukannanir í allavega áratug. Þá er spurt sko hvert fólk fór, hvað það gerði og hvað afþreyingu það borgaði fyrir og slíkt þannig að við höfum kannski heildarmyndina. Ef við kíkjum á þær niðurstöður þá sjáum við að það hefur kannski ekki ýkja mikið breyst á undanförnum árum. Íslendingar fara um landið á sumrin, flestir, en mjög margir í dagsferðir, fólk gistir mest á tjaldsvæðum eða hjá ættingjum og vinum og svo er sundið alltaf númer eitt, tvö og þrjú, hvað varðar afþreyingu.“

Í fyrra ferðuðust 85% landsmanna innanlands. Algengast var að fólk ferðaðist um Suðurland og Norðurland. Hver Íslendingur fór að meðaltali í tæpar sjö ferðir og gisti fjórtán nætur. Sundferðir og ferðir í jarðböð voru sú afþreying sem helst var greitt fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Jarðböð hafa átt auknum vinsældum að fagna meðal Íslendinga síðastliðin ár.

Ferðahugur í landanum

Fólk virðist ætla að ferðast innanlands í sumar, nýleg könnun Ferðamálastofu bendir til þess að það eigi við níu af hverjum tíu. Sala á ferðahýsum hefur rokið upp og í Facebook-hópnum Landið mitt Ísland sést að fólk er að skipuleggja sumarið, spyrja um gistingu á Austurlandi eða eitthvað spennandi að gera á Suðurlandi. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa líka sett þar inn auglýsingar og vakið athygli á þjónustu sinni. Ferðamálastofa er nú að rannsaka ferðaáform fólks í sumar, hvert það ætlar og hvað það getur hugsað sér að gera. Niðurstöðurnar eiga að styðja við markaðsátak stjórnvalda.

Upplifa Íslendingar sig sem ferðamenn?

Mynd með færslu
 Mynd: Andreas Tille
Hveravellir

Guðrún Þóra hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála segir enn vanta miklu meiri upplýsingar um íslenska ferðamanninn, hann hafi verið vanræktur í rannsóknum. Það hafi ekki verið í forgangi að rannsaka viðhorf Íslendinga til þjónustunnar sem er í boði og viðhorf þeirra sem veita þjónustuna til þessa markhóps. Hún myndi vilja rannsaka hvort Íslendingar líta yfirleitt á sig sem ferðamenn á Íslandi. „Ég held það sé áhugaverð orðræða sem kannski hefur síast inn í okkur ómeðvitað, að við séum ekki ferðamenn hér.“ Hún telur að það sé hugsanlega ákveðinn kynslóðamunur. Yngra fólk sem ekki hefur mikil tengsl við landsbyggðina eða þekkingu á einstökum svæðum sjái Ísland frekar sem framandi áfangastað og sig þá frekar sem ferðamenn. 

Er Siglufjörður nýja Berlín?

Eitt af því sem Guðrún Þóra segir að aðgreini íslenska ferðamenn frá erlendum túristum er tilhneigingin til að elta sólina. Íslendingar séu lítið fyrir að tjalda í rigningu, erlendir ferðamenn haldi sig frekar við planið óháð veðri. Tekjurnar ættu að verða mestar í þeim landshlutum sem vinna í veðurlottóinu. Guðrún segir þó hugsanlegt að þetta breytist - að Íslendingar skipuleggi ferðalögin meira í ár. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mannlíf á Siglufirði.

Í fyrra fóru fjórir af hverjum fimm Íslendingum til útlanda, flestir í sólina á Spáni eða Portúgal. Óvíst er hvort af slíkum ferðum verður í sumar og það kann að hafa áhrif á það hvernig fólk ferðast hér heima. 
Nú er hringferðin kannski að koma í staðinn fyrir utanlandsferð og ferðin til Eyrarbakka að eða Siglufjarðar að leysa ferð til Barselóna eða Berlínar af hólmi. Kannski ætlar fólk að vera lengur á faraldsfæti, kannski er það tilbúnara að verja hærri fjárhæðum. Mikið atvinnuleysi og óvissa um framtíðina gæti þó líka grafið undan vilja fólks til að eyða stórum upphæðum í ferðir og gistingu. 

Suðurland skilgreint þrjá áhersluhópa

Suðurlandið er það svæði sem flestir ferðamenn, jafnt íslenskir sem erlendir, skoða og uppbyggingin síðustu ár hefur verið mikil. Markaðsstofa Suðrulands vinnur með sveitarfélögunum að því að efla markaðssókn landshlutans. Á Suðurlandi verður horft sérstaklega til þriggja markhópa, fjölskyldufólks, þeirra sem sækja í hreyfingu og þeirra sem vilja njóta, gera vel við sig í mat og drykk og kaupa þjónustu á hótelum. Fyrirtæki á svæðinu geta fengið handleiðslu og styrk til að aðlaga reksturinn að breyttri stöðu. 

Bæjarhátíðir og fótboltamót í lausu lofti

Enn hamlar óvissan ferðaþjónustunni. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, bendir á að það liggi ekki fyrir hversu margir megi koma saman í sumar, óvissa ríki um hvort bæjarhátíðir falli niður eða verði í einhverri mynd en þær hafi verið ein aðalsprautan í ferðalögum innanlands. Sama máli gegni um fótboltamótin sem hafi ekki verið neinn smá mótor í ferðalögum Íslendinga.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Neistaflug á Neskaupsstað.

Sum fyrirtæki geti ekki aðlagast innanlandsmarkaði

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að fyrir ákveðin fyrirtæki sé ekki eftir neinu að slægjast, hún nefnir til dæmis fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í pakkaferðum fyrir þýskalandsmarkað eða því að þjónusta ráðstefnur. Hún telur að tækifærin liggi helst hjá hótelum á landsbyggðinni og hugsanlega einhverjum afþreyingarfyrirtækjum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bjarnheiður Hallsdóttir.

Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands, segir að fólk þyrfti að hugsa út fyrir kassann, sjá hversu mikið það geti fengið hér fyrir peninginn sem það hefði kannski ella varið í utanlandsferð. Hópar geti tekið sig saman, fengið tilboð í ferðapakka, stórfjölskyldan geti jafnvel leigt sér rútu og fararstjóra. Margrét segir mörg fyrirtæki nú sitja sveitt við reiknivélarnar og ráða ráðum sínum. Hún býst við að einhver stærri hótel eigi eftir að loka, en markaðurinn verði þá lífvænlegri fyrir smærri gistiheimili Það eigi eftir að koma betur í ljós hvort það borgi sig fyrir afþreyingarfyrirtæki að hafa opið, það velti á takmörkunum sem verði í gildi. Hún nefnir til dæmis siglingar á þröngum bátum, það sé óljóst hvort þær gangi yfir höfuð upp.

Tjaldsvæðin þurfa líklega að vísa fólki frá

Í byrjun vikunnar gáfu stjórnvöld út reglur fyrir tjaldsvæði, það þarf að hólfa svæðin niður, hafa að minnsta kosti fjóra metra á milli tjalda og fyrir hverja fimmtíu gesti þurfa að vera tvö salerni sem aðeins þeir mega nota. Þessar reglur gilda næstu vikurhið minnsta. Þær takmarka mjög þann fjölda sem verið getur á tjaldsvæðum. Tryggvi Marínósson, eigandi tjaldsvæðisins Hamra á Akureyri, sagði í samtali við Vísi að hann gæti að óbreyttu einungis tekið á móti 200 gestum en tjaldsvæðið rúmar 2000 manns. Í gær kynnti sóttvarnalæknir áform um að víkka samkomubann enn frekar út, eftir 26. maí mega hundrað koma saman. Þetta auðveldar reksturinn líklega eitthvað.

Ef landsmenn mynda hjólhýsahalarófu á þjóðveginum og hópast í þann landshluta þar sem veðrið er best, verður þá hægt að koma öllum fyrir? Já, segja flestir viðmælendur Spegilsins, en ekki endilega á tjaldsvæðunum. „Ég held það verði ekki skortur á gistiplássi en mögulega verður flókið að finna gistipláss á tjaldsvæðum, sérstaklega ef veðrið er gott. Menn þurfa kannski að leita svolítið og það blasir við að einhverjum verði vísað frá ef ástandið varir út sumarið. Nú er þetta samt bara í gildi næstu vikurnar þannig að við vitum ekki nákvæmlega hvernig staðan verður þegar á líður,“ segir Guðrún Þóra. Fleiri þurfi kannski að leita á hótel og gistiheimili.

Mynd með færslu
 Mynd:
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti á Akureyri

Fann á sér að faraldurinn yrði afdrifaríkur

Íslendingar hafa ekki verið tíðir gestir í hvalaskoðun eða jöklaferðum, kannski hefur þeim fundist það vera meira fyrir erlendu túristina. Von ferðaþjónustufyrirtækjanna sem ætla að hafa opið í sumar stendur til þess að heimamenn verði tilbúnir að prófa eitthvað nýtt, fari ekki bara í sund og jarðböð eins og venjulega, heldur líka í jöklaferðir, svífi yfir gil í aparólu og sigli á kajak. Að landinn gisti ekki bara í sumarbústöðum stéttarfélaga, hjá venslafólki eða á tjaldsvæðum heldur splæsi í hótelgestingu og geri vel við sig. 

Mynd með færslu
 Mynd: Norðursigling
Norðursigling á Húsavík.

Laufey Guðmundsdóttir og Guðlaugur Þosteinsson reka fyrirtækið Glacier Journey, bjóða meðal annars upp á snjósleðaferðir, íshellaferðir og skíðanámskeið fyrir börn á Vatnajökli. 
Glacier Journey hefur hingað til aðallega tekið á móti erlendum ferðamönnum, það hafi verið eitthvað um að fólk úr nærsamfélaginu komi í starfsmannaferðir, annars hafi Íslendingar lítið komið. Vonandi breytist það í sumar. Laufey segist snemma hafa fengið tilfinningu fyrir því að veirufaraldurinn gæti haft afdrifarík áhrif, strax í lok janúar eða byrjun febrúar hafi þau hjónin farið að undirbúa sig. Þau þýddu vefsíðuna og fóru yfir hversu mikið þau gætu lækkað verðin án þess að blæða hreinlega út, niðurstaðan var að veita þriðjungs afslátt og til viðbótar sömdu þau við gistiheimili í nágrenninu um sérkjör fyrir viðskiptavini sína. Skráning á skíðanámskeiðin sem hefjast í júní hefur að sögn Laufeyjar verið nokkuð góð og nokkuð um að fólk hafi bókað ferðir í júní. 

Laufey segir ekki borga sig fyrir fyrirtæki eins og Glacier Journey að leggjast í dvala, þá færi það ekkert af stað aftur. Fyrir utan hvað það væri andlega niðurdrepandi að geta ekkert gert. Hún vill líka berjast fyrir því að halda í vel menntaða starfsmenn sem fyrirtækið hefur fjárfest mikið í.  

Vill að fólk sýni þolinmæði

Þegar hún er spurð um einkenni íslenskra ferðamanna segir hún þá meðvitaða um verðin en að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað er á bak við verðmiðann, það séu til dæmi rándýrar tryggingar á snjósleðum, þau geti þannig ekki lækkað sleðaferðirnar meira nema fara hreinlega að borga með þeim. Hún veltir því líka fyrir sér hvort Íslendingar séu varkárari en erlendir ferðamenn, hafi meiri áhyggjur af hættum sem fylgt geta ævintýraferðum. 

Hún segir það geta tekið á að skipta um markað á einni nóttu, mörg hótel hafi átt erfitt með að láta bókunarvélarnar bekenna íslensk verð. Það þurfi því að sýna fyrirtækjum sem í þessu standa ákveðna þolinmæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Glacier Journey/ Facebook
Mynd af Facebook-síðu fyrirtækisins.

Hvalaskoðun óplægður akur

Arngrímur Arnarson markaðsstjóri Norðursiglingar á Húsavík segir óljóst hvenær fólk fer að ferðast og hvenær verði hægt að sigla. Bátarnir séu ekki stórir og samkomubannið setji fyrirtækinu skorður. Staðan verður tekin um miðjan maí. Kannski geri eftirspurn meðal Íslendinga fyrritækinu kleift að lengja sumarið. Landið opnist svo m0gulega þegar líður á. Hann segist hafa það á tilfinningunni að það sé óplægður akur þegar kemur að Íslendingum og hvalaskoðum. Margir hafi ekki áttað sig á því hversu ótrúleg upplifun þetta sé. Norðursigling er með hefðbundnar íslenskar seglskútur og Arngrímur heldur að margir hefðu áhuga á að fara í siglingu á svoleiðis bát, jafnvel að læra að sigla honum. Það verði reynt að lesa í markaðinn og koma til móts við þarfir hans. 

Ímynd greinarinnar kannski ekki nógu sterk

Fyrirtæki hafa ekki bara þurft að aðlaga ferðaframboðið að væntingum nýja aðalmarkhópsins, þau hafa líka þurft að aðlaga verðið, það er lækka það. Guðrún Þóra hefur fylgst með umræðum á Facebook og segir marga tala um að verðið sé hátt og ferðaþjónsutuaðilar þurfi að koma niður á jörðina. „Mönnum finnst til dæmis þegar ferðaþjónustuaðilar eru að setja inn upplýsingar um það sem þeir eru að bjóða þá er gjarnan spurt - hvert er verðið? af hverju segið þið ekki hvað þetta kostar, eruð þið feimin við að láta það í ljós. Það er ákveðin neikvæðni í gangi og ekki alltaf byggt á þekkingu um hvað verðið er, fólk veit það ekki endilega áður en það segir að það sé of hátt. Það er spurning hvort ímynd greinarinnar sé þá ekki nægilega sterk eða góð gagnvart heimamarkaðinum hvað þetta varðar.“

VIlja fá mikið fyrir peninginn

Flestir þeirra sem Spegillinn hefur rætt við nefna að Íslendingar séu mjög næmir fyrir verðinu og átti sig kannski ekki alltaf á því hvað sé á bak við það. Þeir séu tilbúnir að spreða í útlöndum, borgi tugþúsundir fyrir skemmtigarðapassa og aðra afþreyingu en hér heima tími fólk varla að fara í sund. Mörg fyrirtæki hafa farið þá leið að bjóða pakkatilboð og afsláttarkóða. Íslendingar eru sagðir tilboðsdrifinn markhópur - þeir vilja fá mikið fyrir peninginn, að eitthvað sé innifalið í verðinu. Ný vefsíða fyrir ferðatilboð, Síðasti séns, endurspeglar þetta, sömuleiðis pakkar sem fyrirtæki standa saman að og innihalda gistingu og afþreyingu.

Koma til móts við hundaeigendur

Mörg hótel bjóða tilboð í sumar. Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, hefur farið þá leið. Sjö af sautján hótelum keðjunnar verða opin, eitt í Reykjavík og sex á landsbyggðinni. Hægt verður að kaupa nokkrar nætur saman í pakka og skipta þeim á milli hótela keðjunnar. Önnur nýjung er að bjóða hunda velkomna, þá í fylgd eigenda sinna. Þannig lendi hundaeigendur ekki í vanda með að finna pössun. Davíð Torfi segir að verðið nú sé um þriðjungur þess verðs sem bauðst síðasta sumar. Hann á ekki von á því að koma út í plús eftir sumarið, líklega verði hótelin í mínus en segir þetta leið til að halda í það starfsfólk sem eftir er. Þá finnst honum ákveðin skylda að sinna innanlandsmarkaðnum og bjóða upp á gistingu víða um land. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Torfi.

Camperarnir aldrei vinsælli meðal Íslendinga

 Síðastliðin ár hafa sprottið upp margar bílaleigur sem leigja litla húsbíla, svokallaða kampera. Fyrirtækið Go campers ætlar að reyna að leigja heimamönnum bílana í sumar, á einstökum kjörum, segir í auglýsingu. Benedikt Helgason, framkvæmdastjóri, segir að eftirspurn meðal Íslendinga hafi farið stigvaxandi þó þeir hafi verið mikill minnihluti viðskiptavina. Sumarið í fyrra hafi verið metár og nú þegar hafi fleiri Íslendingar bókað bíl fyrir sumarið en leigðu allt sumarið í fyrra. Benedikt segist hafa þurft að lækka verðin en að með því að halda leigunni úti í sumar vonist hann til að fá einhverjar tekjur inn á fjárfestinguna og sleppa við að segja upp góðu starfsfólki sem margt hafi starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi. 

Bændur hirða sjálfir umboðslaunin

Sævar Skaptason hjá Hey Iceland bændagistingu segir að sumarið sé í raun óskrifað blað en landinn tali mikið um að hann ætli sér að ferðast innanlands og ferðaþjónustubændur geri sig klára til að taka á móti fólki. Undir Hey Iceland heyra 175 gististaðir um allt land. Sævar segir óljóst hverjir eigi eftir að hafa opið, það muni ráðast af eftirspurn. Stórum rekstraraðilum finnist síður taka því en þeim minni, fólk í fjölskyldurekstri opni líklega um leið. 

Hey Iceland er nú komið með sitt eigið bókunarkerfi, það sýnir rauntímaframboð og það er hægt að breyta verðum með litlum fyrirvara. Þannig komist bændur hjá því að greiða umboðslaun til erlendra bókunarvéla á borð við Booking. Sævar segir að þeir megi ekki við því núna. 

Hann segir mikinn hug í ferðaþjónustubændum að taka á móti landanum, það sé unnið að því að nýta matarupplifunina á hverju svæði og bjóða pakka með gistingu og afþreyingu. Margir félagsmenn bjóði upp á rafting, göngur, kajakleigu eða hestaferðir. 

Hefðu viljað hleypa átakinu fyrr af stað

Þó Íslendingar séu farnir að skipuleggja sumarið og ferðaþjónustufyrirtæki farin að auglýsa er ljóst að einhver bið verður eftir því að markaðsátaki stjórnvalda verði hleypt af stokkunum. Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálstjóri, vonar að það fari í loftið fyrir miðjan júní. Skarphéðinn segir að það gerist allt frekar hratt þessa dagana. Það er enn ekki komið í ljós hvaða samkomutakmarkanir verða í gildi í sumar og stofnunin telur ekki ábyrgt að fara of geyst. 

Þrátt fyrir óvissu er átakið langt komið og búið að kynna það fyrir fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Guðný Hrafnkelsdóttir, stýrir átakinu. Hún segir að búið sé að hanna útlit, slagorð og merki fyrir hvatningarátakið. Tökur á sjónvarpsauglýsingu standa yfir. Fyrirtækin geti notað merki átaksins og á vefsíðu átaksins, ferdalag.is, verða aðgengilegar upplýsingar um nær öll leyfisskyld ferðaþjónustufyrirtæki á landinu. Þau sem hyggjast taka við stafrænum ferðagjafabréfum sem stjórnvöld hyggjast gefa öllum íbúum landsins, átján ára og eldri, geta auglýst það sérstaklega og sum hyggjast bjóða afslátt á móti. Guðný segir að Ferðamálastofa hefði viljað fara fyrr af stað, að fyrirtæki séu mörg óþreyjufull, en það sé ekki hægt eins og er, beðið sé eftir því að almannavarnir og sóttvarnayfirvöld gefi grænt ljós.