Fyrsti hluti samningsins kostaði tæpar 60 milljónir

Mynd með færslu
Fréttaflutningur af hugsanlegum viðbrögðum Icelandair hefur vakið viðbrögð víða. Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fyrsti hluti samningsins sem íslenska ríkið gerði við Icelandair um flug til og frá landinu í kórónuveirufaraldrinum kostaði ríkið tæpar 60 milljónir króna. Ekki liggur enn fyrir hvað annar hluti samningsins kostaði, en hann rann út í gær. Sá þriðji er nú í gildi.

Íslensk stjórnvöld hafa endurnýjað samning við Icelandair, sem gengur út á að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Síðasti samningur, sem tók gildi 15. apríl, rann út í gær en Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að hann hafi verið endurnýjaður og gildi nú til 16. maí. Áfram verður því flogið frá Keflavík til Stokkhólms, Lundúna og Boston.

Fyrsti samningurinn milli íslenska ríkisins og Icelandair var gerður 27. mars og hann gilti til 15. apríl. Samkvæmt honum átti kostnaður ríkisins ekki að verða meiri en 100 milljónir króna.

„Ráðuneytið getur upplýst að kostnaður við samning þennan (ásamt viðauka um flug til Alicante 8. apríl sl.) var 59.398.778 kr. Ekki liggur fyrir heildarkostnaður vegna seinni samnings ríkisins og Icelandair frá 15. apríl en samkvæmt samningi skal uppgjöri vegna hans vera lokið 1. júní 2020,“ segir í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi