Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borgarlínan enn á áætlun þrátt fyrir verri efnahag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin hyggst leita allra leiða til að fara í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að efnahagsaðstæður hafi versnað til muna eftir að ríki og sex sveitarfélög gerðu með sér samgöngusáttmála í haust. Helmingur 120 milljarða er enn ófjármagnaður en áður en kórónuveirufaraldurinn braust út var stefnt að því að að fjármagna þann hluta með söluandvirði Íslandsbanka.

Alþingi ræðir nú tvö stór samgöngufrumvörp, annars vegar sem heimilar gjaldtöku af umferð og einkaframkvæmdir í samgöngum og hins vegar um stofnun opinbers hlutafélags um Borgarlínu og samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði, þegar hann mælti fyrir síðara frumvarpinu í gær, að það tengdist einnig efnahagsaðgerðum stjórnvalda að stuðla að aukinni fjárfestingu. Til að flýta megi framkvæmdum sé nauðsynlegt að koma sem fyrst á fót opinberu hlutafélagi um þá umfangsmiklu uppbyggingu sem fyrirhuguð sé á höfuðborgarsvæðinu.

Helmingur enn ófjármagnaður

Heildarkostnaður við framkvæmdir er áætlaðaður 120 milljarðar króna, þar af tryggir ríkissjóður 45 milljarða til verkefnisins með þróun og sölu á landi og í gegnum samgönguáætlun og bein framlög sveitarfélaga eru 15 milljarðar.

Ekki hefur verið ákveðið hvernig hinn helmingur verkefnisins verður fjármagnaður. Bjarni sagði að áður en kórónuveirufaraldurinn hefði brotist út hefðu verði lögð drög að sölu Íslandsbanka og til greina hefði komið að nýta hluta söluandvirðis bankans til að fjármagna þetta verkefni. 

„Það er erfitt að horfa framhjá því að efnahagslegar aðstæður hafa mjög versnað frá því þetta samkomulag var gert en engu að síður er mikilvægt eins og ég hef hér rakið að við leitum allra leiða til þess að fara í framkvæmdir sem auka verðmætasköpun og styrkja innviði og fjallað er um í þessu samkomulagi,“ sagði Bjarni á Alþingi í gær.

Kærkomið fjárfestingatækifæri fyrir lífeyrissjóðina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu um einkaframkvæmd í samgönguframkvæmdum að það sé mikilvægt í því skyni að efla innlenda starfsemi og fjölga störfum. Auk þess sé það kærkomið fjárfestingatækifæri, til að mynda fyrir lífeyrissjóðina. Þetta eru framkvæmdir á borð við tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut og brú á Ölfusá. 

 

„Það er mikilvægt að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við, halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði vel í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn og við förum að sjá ferðamenn eins og við sáum áður,“ sagði Sigurður Ingi.