Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

28% minni umferð á höfuðborgarsvæðinu

06.05.2020 - 09:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Umferð á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 28 prósent í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Aldrei hefur mælst svo mikill samdráttur í umferð á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Umferðin um Hafnarfjarðarveg dróst mest saman, eða um 37,4 prósent. Minnst minnkaði hún á Reykjanesbraut við Dalveg, 23 prósent.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman um tæp 13 prósent frá áramótum ef borið er saman við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei áður hefur samdrátturinn mælst jafn mikil miðað við árstíma og er hann tæplega 4 sinnum meiri en áður hafði mælst.

Mest dróst umferðin saman á sunnudögum, um tæplega 42 prósent. Minnstur var samdrátturinn á fimmtudögum, rúmlega 21 prósent. Yfirleitt er ekið minnst á sunnudögum og mest á miðvikudögum, óháð því hvort samkomubann er í gildi eða ekki.

Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar hefur umferðin aukist jafnt og þétt eftir páska, hún er þó mun minni en eftir páska í fyrra. „Næstu vikur munu verða fróðlegar að sjá því þá kemur betur í ljós hvernig samfélagið nær sér eftir að slakað hefur verið á samkomubanninu,“ segir á vef Vegagerðarinnar