Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sveitarfélög segja sig frá rekstri öldrunarheimila

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Zomer - Pexels
Akureyrarbær ætlar ekki að framlengja samning um rekstur öldrunarheimila við Sjúkratryggingar Íslands. Framkvæmdastjóri segir þónokkur sveitarfélög í svipuðum hugleiðingum. Kröfur til hjúkrunarheimila aukist en dregið sé úr fjárveitingum.

Samkvæmt rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Akureyrarbæjar fellur samningur um rekstur Akureyrarbæjar á hjúkrunarheimilum úr gildi um áramótin. Akureyrarbær hefur ákveðið að framlengja ekki samninginn.

Borga 340 milljónir með rekstrinum árlega

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir aðdragandann vera langan og afstaða bæjarstjórnar sé alveg skýr. „Hún er einhuga í þessu máli að skila rekstrinum aftur til ríkisins. Það er ekki okkar lögbundna hlutverk að sinna rekstri öldrunarheimila og við getum ekki verið að borga 340 milljónir með rekstrinum ár hvert eins og staðan er í dag. Það er algjörlega útilokað mál,“ segir Ásthildur. 

Önnur sveitarfélög í svipuðum hugleiðingum

Eybjörg H. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir þónokkur sveitarfélög í svipuðum hugleiðingum. Ástæðan sé einfaldlega sú að ekki sé verið að veita næga fjármuni í rekstrarfé til hjúkrunarheimila. Kröfur til heimilanna hafi aukist en á sama tíma sé verið að draga úr fjárveitingum. 

Þetta sé rekstur sem sé í raun á ábyrgð ríkisins en sé samt orðinn umfangsmikill og nokkuð íþyngjandi rekstrarbaggi hjá sumum sveitarfélögum. Hún segir samtökin áhyggjufull yfir stöðunni og ítrekað hafa bent á að nauðsynlegt sé að styrkja rekstrargrundvöll stofnananna.