Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Saksóknari fær þúsund síðna skýrslu um Ischgl

05.05.2020 - 16:20
epa08293579 (FILE) - Skiing tourists in Ischgl, Austria, 30 November 2013 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR  AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA
Lögreglan í Austurríki hefur afhent saksóknaraembættinu í Innsbruck þúsund síðna bráðabirgðaskýrslu um rannsókn sína á austurríska skíðabænum Ischgl í Tíról-héraði. „Skýrslan er mjög nákvæm og yfirgripsmikil,“ segir talsmaður saksóknaraembættisins.

Þetta kemur fram á vef Der Spiegel. Haft er eftir talsmanni saksóknaraembættisins að það muni nú fara yfir skýrsluna. Eftir það ætti að liggja fyrir hvort  grunur leiki á að lögbrot hafi verið framin í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Yfirvöld í Tíról og Ischgl hafa verið sökuð um að hafa tekið hagsmuni ferðaþjónustunnar fram yfir heilsu ferðamanna þegar kórónuveirufaraldurinn hófst.  Þau hafi hunsað viðvaranir frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og brugðist of seint við til að vernda ferðamannaiðnaðinn. Íslensk yfirvöld vöruðu við ferðum til Ischgl strax í byrjun mars þegar hópur Íslendinga sem hafði verið þar á skíðum greindist með veiruna eftir komuna til landsins. Skíðasvæðið var sett á lista yfir há-áhættusvæði þann 5. mars. 

Yfirvöld í Tíról sögðu ólíklegt að Íslendingarnir hefðu smitast í Ishcgl. Líklegra væri að fólkið hefði fengið veiruna í flugi á leiðinni heim enda hefðu  þar einnig verið ferðamenn sem voru að koma frá Norður-Ítalíu. 

Málið rataði aftur í fjölmiðla í vikunni þegar austurrískur fjölmiðill birti tölvupóst sem sýndi að íslensk yfirvöld sendu lista yfir þau hótel sem Íslendingarnir gistu á. Fullyrt er að aðeins hafi verið tekið sýni hjá einum starfsmanni á þessum fimm hótelum og  að ekkert hafi verið skimað fyrir veirunni hjá öðrum gestum.  Skíðasvæðinu í Ischgl var ekki lokað fyrr en rúmri viku seinna og voru þá allir sendir til síns heima, grunlausir um hvort þeir væru smitaðir eða ekki.

Rúmlega 5.500 ferðamenn, langflestir frá Þýskalandi, hafa skráð sig hjá austurrískum neytendasamtökum í tengslum við hópmálsókn gegn yfirvöldum í Ischgl vegna málsins.