Gengur erfiðlega að fá endurgreitt

05.05.2020 - 22:56
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 -  Stocksnap
Almennt gengur fólki illa að fá kröfur endurgreiddar vegna mála tengdum Covid-faraldrinum. Fjölmargir Íslendingar eru í þeim sporum að hafa greitt fyrir einhvers konar þjónustu sem ekki var innt af hendi.

Fólk vill fá endurgreitt frá líkamsræktarstöðvum, tónlistarskólum, myndlistarskólum og síðast en ekki síst ferðaþjónustufyrirtækjum og flugfélögum. 

Hundruð menntskælinga voru búnir að panta og greiða inná útskriftarferðir sem falla niður. Þeir nemendur sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu að ferðaskrifstofurnar hefðu farið fram á að fá greitt staðfestingargjald frá öllum upp á um 60 þúsund krónur á mann.  Nú gengur nemendunum ekkert að fá það fé endurgreitt. Ferðaskrifstofurnar segjast ekki geta endurgreitt en bjóða inneign upp í sömu ferð að ári. Það sætta nemendurnir sig ekki við því þeir vilja ekki gera plön langt fram í tímann. Þeir óttast líka að ferðaskrifstofurnar verði gjaldþrota í millitíðinni. Nemendafélag MR hefur fengið sér lögmann til að reka kröfu nemendanna um að fá endurgreitt að fullu. Þeir bíða nú svara en svo virðist sem málin séu í stoppi þar til frumvarp um þessi mál, sem nú er í  atvinnuveganefnd Alþingis, verði að lögum. 

Einn viðmælenda fréttastofu benti á að þeir sem hefðu lagt út fyrir utanlandsferðum, sem ekki fást endurgreiddar, ættu ekki auka pening til að greiða fyrir ferðalög innanlands eins og stjórnvöld hvetja nú til. Inneignarnótur sem ferðaþjónustufyrirtækin og flugfélögin bjóða nýtist ekki innanlands. Menn hafi ekki mikið á milli handanna, tugir þúsunda hafa misst vinnuna og horfa fram á mikla óvissu í fjármálum næstu mánuðina.

Það vakti athygli fréttamanns við vinnslu þessarar fréttar að þeir sem hann ræddi við vildu ekki koma fram í viðtali af ótta við að það hefði neikvæð áhrif á möguleika þeirra á endurgreiðslu frá viðkomandi fyrirtækjum.

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi