Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stefnt að opnun sundlauga 18. maí

04.05.2020 - 15:32
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Samkomubannið var rýmkað í dag, mánudaginn 4. maí. Nú mega 50 manns koma saman í staðinn fyrir 20. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að stefnt væri á að opna sundlaugar aftur eftir tvær vikur. Þá verður samt að fylgja öllum reglum um samkomubannið.

Þakkaði mörgum

Þórólfur þakkaði mörgum fyrir að berjast við faraldurinn á fundinum í dag. „Þó að það hafi ekki verið mitt hlutverk fram að þessu að þakka, þá held ég að það sé mjög nauðsynlegt að þakka á þessum tímapunkti,“ sagði Þórólfur.

Hann þakkaði almenningi fyrir að taka mark á leiðbeiningum sínum. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu fyrir gott starf. „Þetta er svona fólk sem vinnur bak við og enginn veit nákvæmlega hvað er að gera,“ sagði hann. Fólkið hafi samt unnið mjög mikið og lagt sig fram.

Þórólfur þakkaði heilsugæslunni og teyminu sem vann við að rekja hvernig fólk hefði smitast. Einnig þakkaði hann öllum sem vinna á Landspítalanum, Íslenskri erfðagreiningu og Kára Stefánssyni. Hann þakkaði líka mörgum öðrum hópum fólks sem hefur unnið mikið undanfarið. Og svo þakkaði hann stjórnvöldum, ríkisstjórninni og ráðherranum sínum, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, fyrir góða samvinnu.

Verkefninu ekki lokið

„Verkefninu er ekki lokið þó að við séum búin með einn eða tvo kafla,“ sagði Þórólfur. Hann minnti á að þvo hendur og spritta og líka á tveggja metra regluna. „Auðvitað verður erfiðara að framfylgja henni þegar allar tilslakanir hafa komið fram en ég bið menn um að hafa í huga að reyna að halda þessari reglu eins og hægt er.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV