Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stefnt að opnun sundlauga 18. maí

04.05.2020 - 14:59
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Stefnt er að því að opna sundlaugar mánudaginn 18. maí, með takmörkunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir greindi frá á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann hafi rætt við heilbrigðisráðherra um frekari tilslakanir á samkomubanni á næstunni.

„Við urðum ásátt, ég og heilbrigðisráðherra, um að stefna að því að opna sundlaugar fyrir almenning þann 18. maí, með ákveðnum takmörkunum. Og jafnframt þá er rétt að það komi fram að það verður háð því hvernig framvinda faraldursins verður á næstunni,“ sagði Þórólfur.

Hann segir ekki tímabært að kynna hvernig framkvæmdin á frekari tilslökunum verði. Það verður kynnt formlega með auglýsingu frá heilbrigðisráðherra.

Samkomubannið rýmkað í dag

Samkomubannið var rýmkað á landsvísu í dag, 4. maí og nú mega 50 manns koma saman í stað 20 áður. Þórólfur hefur þegar rætt um að á næstu vikum verði slakað enn á samkomutakmörkunum sem hafa verið í gildi síðan í byrjun mars til að stemma stigu við kórónuveirufaraldurinn.

Þórólfur þakkaði fjölda fólks fyrir sitt framlag í baráttuna við faraldurinn á fundinum í dag. „Þó að það hafi ekki verið mitt hlutverk fram að þessu að þakka, þá held ég að það sé mjög nauðsynlegt að þakka á þessum tímapunkti,“ sagði Þórólfur.

Einstakt starf á alþjóðavísu

Hann þakkaði almenningi fyrir að taka mark á leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu hjá embætti sóttvarnarlæknis fyrir gott starf. „Þetta er svona fólk sem vinnur bakvið og enginn veit nákvæmlega hvað er að gera, en leggur dag við nótt og hefur gert það fram að þessu,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur þakkaði umdæmislæknum sóttvarna og heilsugæslunni fyrir góð og fumlaus vinnubrögð. Hann þakkaði rakningarteymi samhæfingarmiðstöðvarinnar, „sem er einstakt fyrirbæri og það á eftir að gera vinnu þeirra betur upp. Ég held að það eigi eftir að hafa þýðingu fyrir alþjóðasamfélagið hvað þar var unnið,“ sagði Þórólfur.

Einnig þakkaði hann farsóttarnefnd og viðbragðsstjórn Landspítalans, veirufræðideild Landspítalans og Íslenski erfðagreiningu og Kára Stefánssyni. Og svo þakkaði hann stjórnvöldum, ríkisstjórninni og ráðherranum sínum, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, fyrir góða samvinnu fram að þessu.

Verkefninu ekki lokið

„Verkefninu er ekki lokið þó að við séum búin að loka einum til tveimur köflum í verkefninu,“ sagði Þórólfur og minnti á einstaklingsbundnar sóttvarnarráðstafanir og tveggja metra regluna. „Auðvitað verður erfiðara að framfylgja henni þegar allar tilskanir hafa komið fram en ég bið menn um að hafa í huga að reyna að halda þessari reglu eins og hægt er.“