Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kvikuinnflæði undir Þorbjörn lokið í bili

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Verulega hefur dregið úr skjálftavirkni við Þorbjörn og landris mælist ekki lengur. Þetta bendir til þess að kvikuinnflæði á svæðinu sé lokið í bili.

Vísindaráð almannavarna hélt fund um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga 30. apríl. Þar kom fram að í byrjun apríl dró úr landrisi við Þorbjörn og um miðjan mánuðinn lauk þessari seinni landrishrinu á svæðinu. 

Á sama tíma hefur dregið verulega úr skjálftavirkni sem bendir til þess að kvikuinnflæði undir Þorbjörn sé lokið í bili. 

Þrátt fyrir að ekki mælist lengur landris við Þorbjörn gætir enn dálítilla landbreytinga á stærra svæði. Ef tekið er mið af þróuninni síðustu mánuði verður að gera ráð fyrir möguleika á að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum, segir á vef Veðurstofu Íslands. Áfram verður fylgst vel með þróuninni á Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftahætta á svæðinu er viðvarandi.