Keppa í fréttum um umhverfisvernd og hamfarahlýnun

Mynd með færslu
 Mynd: hellisbuarnir - Instagram

Keppa í fréttum um umhverfisvernd og hamfarahlýnun

04.05.2020 - 15:28
Fjörutíu verkefni bárust í nýja samkeppni Landverndar sem ber heitið Ungt umhverfisfréttafólk. Nemendur í tíu framhaldsskólum tóku þátt í keppninni og nú er orðið ljóst hvaða verkefni komust áfram í undanúrslit.

Tilkynnt verður um úrslit keppninnar miðvikudaginn 6. maí næstkomandi. Sambærileg samkeppni er rekin í 45 löndum vítt og breytt um heiminn, en eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem íslenskum framhaldsskólanemum býðst þátttaka. Verðlaun verða afhent í beinu streymi frá Norræna húsinu klukkan 13 á miðvikudag. 

Eftirfarandi verkefni eru í úrslitum að þessu sinni: 

Fjalla á fræðandi hátt um mengun af völdum samfélagsmiðla

Þrír strákar á fyrsta ári í Tækniskólanum, þeir Axel Bjarkar, Hálfdán Helgi og Sölvi Bjartur gerðu stutta heimildarmynd um mengun samfélagsmiðla og streymisveita. 

 

Vekja athygli á fatasóun

Fjórar stúlkur frá Menntaskólanum á Laugarvatni gengu í hús og söfnuðu notuðum fötum og gáfu þeim nýtt líf til þess að vekja athygli á fatasóun í heiminum. Úr fötunum varð veggteppi þar sem sjá má ýmsar staðreyndir varðandi þá gífurlegu fatasóun sem er til staðar í heiminum í dag.

Afmæliskaka neyslusamfélagsins

Ásdís Rós, 22 ára nemi í Fjölbrautarskólanum við Ármúla gerði áhrifaríka mynd um neysluhegðun og rusl í náttúrunni. Með myndinni vill hún vekja athygli á því að það er á ruslið og neyslusamfélagið er á ábyrgð allra.

Congratulations humanity eftir Ásdísi Rós Þórisdóttur

Er hægt að vera vegan á heimavist? 

Verkefni Hafdísar, Ásdísar og Diljá frá Menntaskólanum að Laugarvatni, fræðir okkur um það sem þeim þykir nauðsynlegt að allir viti um umhverfismálin. Þær töluðu við þrjá áhrifavalda sem hafa látið gott af sér leiða í loftslagsmálum, veltu fyrir sér kjötneyslu og prófuðu að vera vegan þegar maturinn úr mötuneyti heimavistarinnar var það eina sem stóð til boða.

 

Verzlingar spyrja sig hvað þau geti gert til bjargar náttúrunni

Nemendur í Verzlunarskóla Íslands bjuggu til hlaðvarp þar sem þeir ræða sín á milli um einstaklingsframtakið í loftslagsmálum. Þættirnir eru fjórir talsins, stuttir og aðgengilegir; og gefa góða innsýn í hugarheim ungs fólks varðandi umhverfismálin. 

 

 

Bráðnun jökla á samfélagsmiðlum

Nemendur frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu nýttu samfélagsmiðilinn Instagram til að koma skilaboðum á framfæri varðandi loftslagsbreytingar og bráðnun jökla. Þau kalla sig Hellisbúana og myndböndin þeirra eru flest tekin upp í íshellum.