Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundrað ekki heilög tala

04.05.2020 - 20:39
Mynd: Skjáskot / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi í kvöld að meta verði árangur af rýmkun samkomubanns í dag áður en næstu skref verða ákveðin. „Ef árangurinn verður góður held ég að við getum lagt til við ráðherra, við höfum talað um hundrað manns í næsta skrefi, en það er ekki heilög tala. Við þurfum aðeins að sjá til. Endanlega er það ráðherra sem ákveður þetta.“ Þórólfur lýsti efasemdum um að Ísland opnað verði á ferðalög milli landa á næstunni.

Þórólfur lýsti efasemdum um að mikið yrðu um ferðalög milli landa í sumar. Bæði væru sum lönd með áform um lokanir fram á sumar og eins taldi hann að fólk yrði ekki ginnkeypt fyrir slíkum ferðalögum.

Margt er til skoðunar um næstu skref þegar kemur að ferðum milli landa. „Á einhverjum tímapunkti verða menn að opna. Auðvitað vilja menn gera það í sem mestri samvinnu milli þjóða. Það er bara verið að skoða ýmsar útfærslur á því,“ sagði Þórólfur. Hann sagði að hópur á vegum forsætisráðuneytis væri að skoða hvað tæki við 15. maí. Fram að þeim tíma þurfa allir að fara í sóttkví sem koma hingað til lands.

„Mér finnst það frekar ólíklegt,“ svaraði Þórólfur spurningu um hversu líklegt væri að landið yrði opnað 15. maí. „Ef við horfum eingöngu á heilbrigðissjónarmiðin þá hefur okkur tekist mjög vel að ráða niðurlögum faraldursins hér innanlands. Það er mjög lítið smit í gangi.“ Hann sagðist vilja koma eins og hægt er í veg fyrir smit erlendis frá, þó verði að horfa til atvinnulífsins líka.

Kappleikir hugsanlega án áhorfenda

Þórólfur ræddi meðal annars stöðuna í íþróttaiðkun og keppnum. Hann sagði að svo gæti farið að kappleikir þyrftu að fara fram án áhorfenda fyrst um sinn.