Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlíðarfjall varð af helmingi áætlaðra tekna

04.05.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall - Aðsend mynd
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli varð af helmingi tekna vetursins vegna kórónuveirunnar. Forstöðumaður segir ekkert annað í stöðunni en að líta björtum augum til næsta veturs. Ný skíðalyfta verður kláruð í sumar.

Skíðasvæði landsins lokuðu 20. mars vegna COVID-19, æfingar og mótahald var bannað en gönguskíðabrautir voru áfram opnar.
Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, telur tugi milljóna hafa tapast eða um helming áætlaðra tekna. Hann segir tímabilin í raun vera tvö, annars vegar vetrarfríið og hins vegar páskarnir.

„Handritið var skrifað í skýin, vorum að klára lyftuna, sjaldan verið jafn mikill og góður snjór, flott veður um páska og svo hrundi bara spilaborgin," segir Guðmundur Karl, það sé hins vegar ekkert annað í stöðunni en að líta björtum augum til næsta veturs og þá verði ný skíðalyfta komin í gagnið.

Tveir erlendir sérfræðingar sem áttu að aðstoða við lokavinnuna sneru heim vegna kórónuveirufaraldsins, það séu því tvær til þrjá vikur eftir af vinnu sem verði kláruð í sumar.