Birgir - Untold Stories

Mynd: Alda / Untold Stories

Birgir - Untold Stories

04.05.2020 - 16:30

Höfundar

Platan Untold Stories hefur verið í yfir tvö ár í smíðum hjá Birgi Steini Stefánssyni, eða bara Birgi, eins og hann kallar sig, en hún kemur út föstudaginn 8. maí hjá Öldu Music. Plötuna vann Birgir með Arnari Guðjónssyni í Aeronut-hljóðverinu en lögin eru flest eftir Birgi og Andra Þór Jónsson.

Birgir er með vinsælli íslensku tónlistarmönnum á streymisveitunni Spotify. Hann er fæddur 1992 og gaf út sína fyrstu plötu árið 2017 sem var þröngskífa sem innihélt lögin With You og Last For Long sem náðu til eyrna útvarpshlustenda. Stóra lagið er síðan poppsmellurinn Can You Feel It sem er að detta í tvöfalda platínu eða tuttugu milljón spilanir. Síðan hefur hann gefið út nokkur lög sem hafa gengið glimrandi, þó það sé ekki neitt viðlíka og Can You Feel It, en það er kannski ekki skrítið.

Á þessari fyrstu breiðskífu Birgis er samansafn af þeim lögum sem hann hefur nú þegar gefið út ásamt nýjum lögum úr hans smiðju á persónulegum nótum þar sem hann skilur ekkert eftir að eigin sögn. Það er gestkvæmt á Untold Story og meðal þeirra sem lagt hafa í púkkið hjá Birgi eru þau Raven, Bergur Einar, Kristinn Snær, Elísabet Ormslev, Stefanía Svavars, Arnar Guðjónsson og Andri Þór Jónsson.

Plata Birgis Untold Stories er plata vikunnar á Rás 2 en hún kemur út á föstudaginn. Ef þú vilt þjófstarta gleðinni þá getur þú hlustað á hana ásamt kynningum Birgis í spilara hér að ofan. 

Birgir - Untold Stories