Bíósýningar hefjast á ný en Bíó Paradís lokað

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Bíósýningar hefjast á ný en Bíó Paradís lokað

04.05.2020 - 21:10

Höfundar

Kvikmyndasýningar hófust á ný í dag þegar nokkur kvikmyndahús voru opnuð eftir að rýmkað var á samkomubanni. Stefnt er að opnun fleiri kvikmyndahúsa á næstunni. Eitt kvikmyndahúsanna verður þó ekki opnað að óbreyttu. Það er Bíó Paradís en óvissa hefur ríkt um framtíð þess frá því í ársbyrjun.

„Það er lokað og það verður lokað hérna áfram nema eitthvað komi til,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar. 

Snemma árs tilkynntu forsvarsmenn kvikmyndahússins að því yrði lokað 1. maí. Þá var fyrirsjáanlegt að leiga á húsnæði Bíó Paradísar myndi hækka það mikið um mitt ár að reksturinn stæði ekki undir því. Því leituðu aðstandendur bíósins til borgarinnar og menntamálaráðuneytisins um aukinn stuðning svo hægt væri að reka kvikmyndahúsið áfram.

Hrönn segir að haft hafi verið samband við menntamálaráðuneytið þegar í fyrravor. Ekkert hafi þó komið út úr þeim viðræðum ennþá. Hún segir að ekki verði hægt að reka kvikmyndahúsið áfram nema til komi stuðningur ríkis og borgar. Það er ekki aðeins hærri leiga sem setur Bíó Paradís skorður heldur þarf að endurnýja margt í húsinu, þar á meðal loftræstingu, salerni og sæti. Og ekki er hægt að ráðast í framkvæmdir nema rekstur kvikmyndahússins sé tryggður til frambúðar.

Eitt kvikmyndahús Sambíó hefur verið opnað, bíóið í Álfabakka, en önnur eru enn lokuð þó stefnt sé að opnun þeirra. Laugarásbíó, Smárabíó og Borgarbíó á Akureyri hafa einnig verið opnuð.