Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Akureyrarbær framlengir ekki samning um öldrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Akureyrarbæjar um þjónustu Öldrunarheimila Akureyrar verður ekki framlengdur. Óskað er eftir viðræðum um framtíðarrekstur innan mánaðar.

Samkvæmt rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Akureyrarbæjar frá 2016, og þróunarsamningi frá 2019, fellur samningur um rekstur Akureyrarbæjar á hjúkrunarheimilum úr gildi 31. desember 2020.

Heimilt er að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár, en nú hefur bæjarráð samþykkt að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra að bærinn muni ekki óska eftir framlengingu. Óskað verði eftir viðræðum um framtíðarrekstur hjúkrunarheimila og dagþjónustu á Akureyri innan 30 daga frá tilkynningunni.

„Það er von Akureyrarbæjar að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur hjúkrunarheimilanna um næstu áramót verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er, frekar að hún verði efld,“ segir í bókun bæjarráðs frá 30. apríl.