„Vá, ég get ekki beðið eftir því að fara í fótbolta“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Vá, ég get ekki beðið eftir því að fara í fótbolta“

03.05.2020 - 20:30
Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals í fótbolta, segist ekki geta beðið eftir að hefja æfingar á ný en á morgun verður tekið fyrsta skrefið í afléttingu samkomubanns.

Íþróttastarf barna og unglinga hefst með hefðbundnum hætti á morgun en takmarkanir verða á æfingum fullorðinna. Í fótboltanum mega til að mynda að hámarki sjö æfa á hverjum fjórðungi af heilum velli en Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskona og leikmaður Íslandsmeistara Vals, er afar spennt fyrir því að fá að hefja æfingar á nýjan leik.

„Ég get ekki beðið, við erum samt búnar að vera mjög duglegar, erum búnar að vera hóa okkur saman þrjár og æfa saman í þessu samkomubanni þannig að sjö er bara geggjað,“ segir Fanndís.

Áætlað er að keppni hefjist í Pepsi Max deildum karla og kvenna um miðjan júní. „Ég vil bara byrja þetta strax, auðvitað þarf að fínpússa þetta eitthvað en það eru allir á sama stað, ein til tvær vikur er bara fínt held ég. Þetta er ótrúlega skrítið maður hefur aldrei verið í þessum aðstæðum áður, maður finnur það bara núna, vá ég get ekki beðið eftir því að fara í fótbolta,“ segir hún.

Er ást þín á leiknum búin að endurnýjast?
„Já, og margfaldast einhvernveginn, þetta er ógeðslega skrítið, sérstaklega eins og ég, ég er ekkert að gera neitt annað en að vera í fótbolta og það bara vantar ótrúlega mikið þegar maður er ekki í fótbolta þegar það er það eina sem maður er að gera,“ segir Fanndís.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Mörk Fanndísar og Dagnýjar gegn Lettlandi

Fótbolti

Fanndís sú níunda til að spila 100 landsleiki