Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umferð um Dyrhólaey takmörkuð næstu vikurnar

03.05.2020 - 07:08
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Umferð um Dyrhólaey verður takmörkuð fram til 25. júní til að gefa fuglum frið á meðan varptíma stendur. Sú hugmynd hefur kviknað að koma fyrir niðurgröfnu skoðunarhúsi svo að ferðamenn geti notið lundavarpsins enn betur.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að banna alla umferð um Dyrhólaey frá klukkan 19 að kvöldi til 9 að morgni. Bannið tók gildi 1. maí og stendur til 25. júní. Eftir það verður friðlandið opið allan sólarhringinn.

Þetta er gert til að vernda viðkvæmt fuglalíf í Dyrhólaey en varptímabil er að hefjast. Við ákvörðunina studdist Umhverfastofnun við skýrslu fuglafræðings á árlegri athugun á stöðu fuglalífs.

Sjónaukar og skoðunarhús fyrir ferðamenn

Í skýrslunni kennir raunar ýmissa grasa, meðal annars að öllum verpandi fuglum í Dyrhólaey hafi farið fækkandi frá aldamótum. Þá eru lagðar til hugmyndir um hvernig megi bæta aðgengi og upplifun ferðamanna án truflunar fyrir fuglalíf. Þannig mætti setja upp tvo landfasta útsýnissjónauka austan og vestan við vitann sem og að koma fyrir niðurgröfnu ílöngu skoðunarhúsi við lundavarpið. Það myndi gefa ferðamönnum færi á að skoða og mynda lunda á stuttu færi en um leið hlífa þeim við truflun vegna mannaferða.

Minkurinn veldur usla

Þá eru viðraðar áhyggjur af rándýrum eins og mink og ref. Segir að minkur geti auðveldlega eytt litlu lundavarpi í einni heimsókn og því mætti íhuga að setja minkahelda girðingu til varna umhverfis varpið.

Kríu hefur fækkað miðkið á svæðinu undanfarin ár. Augu skýrsluhöfunda beinast einkum að umferð manna en sérstaklega er bent á að það hafi ekki verið til bóta að byggja salerni á hennar helsta varpstað.

Magnús Geir Eyjólfsson