Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skothríð á kóresku landamærunum

03.05.2020 - 05:33
epa07751051 (FILE) - A general view over the Demilitarized Zone (DMZ) on the border with North Korea in Cheorwon, Gangwon Province, South Korea, 24 July 2018 (reissued 01 August 2019). South Korea's Joint Chiefs of Staff (JSC) said on 01 August 2019 that the South Korean military detained a North Korean soldier who crossed the heavily fortified DMZ late on 31 July 2019. The soldier, who intended to defect to the South, was detected by thermal imaging equipment moving south near the Imjin River, JSC added.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA
Hermenn Norður-Kóreu og Suður-Kóreu skiptust á skotum á hlutlausa svæðinu milli ríkjanna tveggja í nótt. Í yfirlýsingu frá suðurkóreskum yfirvöldum kemur fram að skot frá Norður-Kóreu hafi hæft varðhús suðurkóreskra hermanna í landamærabænum Cheorwon. Ekkert manntjón varð og enginn slasaðist.

Í kjölfarið hófu suðurkóreskir hermenn skothríð í átt að Norður-Kóreu og lásu viðvörun í kallkerfi. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem þjóðirnar, sem lengi hafa eldað grátt silfur, skiptast á skotum á landamærunum. Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, komust að samkomulagi fyrir tveimur árum um að allt kapp yrði lagt á að friður væri á landamærunum.

Ekki liggur fyrir hvað olli því að hermenn Norður-Kóreu skutu á suðurkóreska varðhúsið í nótt. Bandarísk stjórnvöld hafa leitað eftir skýringum hjá stjórnvöldum þar í landi varðandi atvikið.

Óþekktum flugskeytum hefur minnst fjórum sinnum verið skotið frá Norður-Kóreu í átt að Japanshafi á þessu ári. Eftir þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hafa þau stirðnað á ný. Samkomulag um að binda enda á viðskiptaþvinganir í garð Norður-Kóreu náðist ekki á leiðtogafundi í fyrra. Í lok síðasta árs lýsti Kim því svo yfir að ríkið væri ekki lengur bundið af banni við kjarnavopna- og flugskeytatilraunum.

Einungis tveir dagar eru síðan Kim Jong-un sást opinberlega í fyrsta skipti í tuttugu daga. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í færslu á Twitter í kvöld að hann væri ánægður að sjá leiðtoga Norður Kóreu aftur og þá væru það gleðitíðindi að hann væri heill heilsu. Kim undirgekkst hjartaaðgerð um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið var hann sagður alvarlega veikur eða jafnvel látinn.