Safnar hljómi kirkjuklukkna landsins

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Safnar hljómi kirkjuklukkna landsins

03.05.2020 - 09:00

Höfundar

Guðmundur er flugumferðarstjóri en þegar tími gefst sinnir hann gæluverkefni sínu; Kirkjuklukkum Íslands. „Hugmyndin með verkefninu er að heimsækja allar kirkjur á Íslandi og taka upp og skrá niður upplýsingar um kirkjuklukkur á landinu. Þær eru 370 talsins kirkjurnar og ég er búinn með um 70 svo ég á nóg eftir,“ segir Guðmundur.

Fjallað verður  um verkefni Guðmundar; Kirkjuklukkur Íslands í Landanum í kvöld  kl. 20.00.

Hringingar geta verið mismunandi eftir kirkjum

Guðmundur mælir klukkurnar, skoðar áletranir, tekur myndir af þeim sem og kirkjunni, fær upplýsingar um hringjara og tekur svo upp hringingarnar. Aldur, fjöldi, stærð, gerð og samsetning kirkjuklukkna er ólík eftir kirkjum sem og hefðin fyrir því hvernig þeim er hringt. „Það eru þessi grunnviðmið sem allir nota, hringja fyrir messu og yfirleitt eftir messu líka, en hvernig það er gert, hvaða klukkurnar notaðar og eins við útfarir, hvernig er líkhringing og slíkt, það er mismunandi en mótast af sögunni á hverjum stað og hefðum. Og svo sérstaklega í þéttbýli þá mótast það líka af nágrönnunum og tillitsemi við þá,“ segir Guðmundur.

Rafmagnið leysir hringjara af hólmi

Jón Ben Guðjónsson hringir klukkunum í Hvalsneskirkju en víða hefur rafmagnið leyst hringjarann af hólmi: „Ég er áttatíu og þriggja ára og tel mig geta eitthvað hreyft mig næstu fimm árin. Ég geri ráð fyrir því að þá verði þetta tölvuvætt. Það er í bakhöndinni að það sé gert en ekki orðið enn þá. Á meðan ég hef heilsuna þá er þetta í lagi.“

Safnar upplýsingum um kirkjuklukkur á einn stað

Með hjálp frá Jóni hringjara, safnar Guðmundur þeim upplýsingum sem hann þarf í Hvalsneskirkju. „Þessu er öllu safnað saman á vefinn kirkjuklukkur.is og þar er ætlunin að gera þetta aðgengilegt á endanum, þegar ég verð ábyggilega orðinn hundgamall.“