Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mögnuð reynsla fyrir hjónin að hafa verið lokuð af

Mynd: Silfrið / RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir það hafa verið magnaða reynslu fyrir þau Dorrit Moussiaeff, eiginkonu hans, að hafa þurft að loka sig af vegna kórónuveirufaraldursins. Hún smitaðist en hefur nú jafnað sig. Veiran geti ekki aðeins umturnað heimsmyndinni og hagkerfum heldur einnig lífi fólks.

Ólafur Ragnar segir að þau hafi ferðast mikið fyrstu tvo mánuði ársins, þar á meðal til Indlands í byrjun mars. Á átta dögum hafi þau hitt forseta landsins og önnur fyrirmenni og áhyggjur af heimsfaraldrinum víðsfjarri.

Ólafur Ragnar segir að í framhaldinu hafi hann farið til Berlínar á fundi en Dorrit hafi farið heim með viðkomu í Lundúnum. Skömmu eftir að hún kom heim greindist hún með COVID-smit en hefur nú náð bata.

Ólafur Ragnar greindi frá því í Silfrinu að Dorrit væri í áhættuhópi en að hún sé nú orðin hress og gangi á Esjuna reglulega. Hann hafi sjálfur farið í nokkur smitpróf og þau hafi alltaf verið neikvæð. Þau bíði nú niðurstöðu úr mótefnarannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

„Þannig fyrir okkur persónulega að hafa verið á Indlandi og mig að vera í Berlín, koma svo hérna heim og skömmu síðar er Dorrit bara orðin lokuð inni í herbergi og ég verð að leggja matinn fyrir utan dyrnar hjá henni, passa að hún fái eitthvað að borða og geta aldrei snert hana eða komið nálægt henni. Við vorum bara tvö ein í húsinu í Mosfellsbæ, segir hann. 

FJölskyldan hafi keypt í matinn fyrir þau og skilið eftir fyrir utan dyrnar. 

„Og vorum algjörlega lokuð af og var auðvitað mögnuð reynsla, satt best að segja, og sýndi manni hvernig þessi veira getur umturnað ekki aðeins hagkerfum og heimsmyndinni heldur lífi okkar allra.“
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV