Meira - Hakan Günday

Mynd:  / 

Meira - Hakan Günday

03.05.2020 - 21:45

Höfundar

Skáldsagan Meira eftir tyrkneska rithöfundinn Hakan Günday hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum. Hún er skrifuð beint inn í samtímann og gefur innsýn í líf smyglara við Miðjarðarhafið sem hýsa og flytja flóttafólk sem í örvæntingu sinni flýja helvíti á jörðu í leit að paradís.

Bók sem kom fyrst út árið 2013 og hefur síðan verið þýdd á fjölmörg tungumál og vakið mikla athygli víða um heim. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna, m.a. hin virtu frönsku bókmenntaverðlaun, Le Prix Medicis Etranger 2015. Gagnrýnendur hafa borið hana saman við Blikktrommuna eftir nóbelshöfundinn Günters Grass og skáldsögur Fíodrovs Dostojevskís. Hakan Günday er sannarlega einn af athyglisverðustu rithöfundum samtímans. Hann var gestur bókmenntahátíðar í Reykjavík 2019, sama ár og þýðing Friðriks Rafnssonar á skáldsögunni Meira kom út.

Meira segir sögu tyrkneska drengsins Gaza sem býr við Eyjahafið. Aðeins níu ára gamall er hann farinn að aðstoða föður sinn við mansal, að smygla ólöglegum innflytjendum, með því að gefa þeim mat og skjól áður en þeir freista þess að komast yfir til Grikklands. En eina nóttina breytist allt. Skyndilega er Gaza neyddur til að horfast í augu við sjálfan sig og það hvernig hann ætlar að lifa af.

Viðmælendur í Bók vikunnar eru þær Hildur Knútsdóttir rithöfundur og Elínborg Harpa Önundardóttir aðgerðasinni. Hægt er að hlusta á brot úr viðtali við Friðrik Rafnsson þýðanda um Meira sem áður var flutt í þættinum Orð um bækur í umsjón Jórunnar Sigurðardóttur.